Hrókeringar í bresku ríkisstjórninni

15.09.2021 - 18:05
epa09419079 A handout photo made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson during a debate on the Afghanistan crisis, in the House of Commons in London, Britain, 18 August 2021. Prime Minister Johnson had recalled parliament from recess to discuss the ongoing situation in Afghanistan.  EPA-EFE/UK Parliament / Roger Harris HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Liz Truss, ráðherra utanríkisviðskipta í bresku ríkisstjórninni, tók í dag við embætti utanríkisráðherra af Dominic Raab. Hann þótti standa sig illa þegar breskt herlið var flutt frá Afganistan fyrr á þessu ári. Menntamálaráðherrann hefur látið af embætti. Búist er við frekari breytingum á bresku stjórninni.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að Boris Johnson forsætisráðherra ætlaði að stokka upp í ríkisstjórninni - þétta raðirnar til að hún yrði sem best búin til að taka á málum þegar dregur úr áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Gavin Williamson menntamálaráðherra var fyrstur til að taka pokann sinn. Hann hefur borið af í óvinsældum þegar breskir kjósendur eru spurðir um frammistöðu einstakra ráðherra. 

Síðdegis var svo tilkynnt að Dominic Raab léti af embætti utanríkisráðherra. Hann þykir hafa gert ýmis mistök í starfi og meðal annars verið dreginn til ábyrgðar fyrir snautlega brottför breska herliðsins frá Afganistan í sumar. Liz Truss, ráðherra utanríkisviðskipta og langvinsælasti ráðherra stjórnarinnar, tekur við að Raab. Hann verður þó áfram í liðinu hjá Boris Johnson, því hann verður vara-forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og forseti lávarðdeildar breska þingsins. 

Nokkrar fleiri breytingar á ríkisstjórninni voru kynntar síðdegis og undir kvöld. Að sögn breskra fjölmiðla hefur uppstokkunin leitt til þess að nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í röðum æðstu ráðherra stjórnarinnar.