Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraunbelgir verða til og springa í Geldingadölum

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar S Einarsson
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að gera megi ráð fyrir að atburðarás eins og varð í gosinu í Geldingadölum í morgun margendurtaki sig. Eðli þessa goss sé af því tagi. Meðan hallinn liggi í Nátthaga muni hraunið renna þangað. Gosstöðvarnar voru rýmdar í morgun vegna aukinnar hættu.

Hraunbelgir munu ítrekað verða til í hrauninu í Geldingadölum og springa með svipuðum afleiðingum og í dag þegar hraunelfar tóku að renna ört úr gosinu. Þetta segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.

Eldgosið í Geldingadölum var einungis í yfirborðshléi í tæpa viku að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings. Skýringin á því hvað eigi sér stað sé einföld. Kvikan hafi runnið undir skelina í Geldingadölum og byggi upp þrýsting. Á laugardag hafi það sýnt sig þegar yfirborðsvirknin hófst á ný hafi hraunhverir verið nyrst í Geldingadölum. 

„Núna það sem gerðist í morgun er að kvikubelgurinn sem teygir sig þarna til suðurs hann sprakk. hraunið sem hélt honum niðri opnaðist og þá kemst hraunið mjög hratt út eins og við sáum í morgun og ofan í Nátthaga."

Ármann segir mikla kvikubelgi komna í Geldingadali. Þar sem rennsli og framleiðsla gossins hafi verið lítil alveg frá því það hófst fyrir tæpu hálfu ári eða um fimm til tíu rúmmetrar á sekúndu, þá komist hraunið að jafnaði mjög stutt.

„En með því að búa til svona hraunbelgi inni í hrauninu þá kemst hraunið hraðar yfir og lengra."  „Má búast við því að þessi saga endurtaki sig að það myndist bóla sem að springi hvað eftir annað?" „Alveg klárlega, svona gos þau ganga þannig. Þannig fær hraunið tækifæri til að teygja sig lengra frá eldstöðinni eða gígunum en það gæti annars."