Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Barn með COVID-19 lagt inn á Landspítala

15.09.2021 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Unglingsdrengur var í gær lagður inn á Landspítalann með COVID-19, en þetta er í fyrsta skipti frá því kórónuveiran barst hingað til lands sem barn er lagt inn á spítala. Alls eru 105 börn smituð af COVID-19 hér á landi eins og stendur.

Valtýr Stefánsson Thors, læknir á Barnaspítala hringsins, segir að drengnum líði ágætlega. Hann hafi verið lagður inn um það leyti sem hann var að klára einangrun, og að það hafi verið fylgikvilli COVID-19 sem varð til þess að hann þurfti að leggjast inn á spítala. Hann býst ekki við að drengurinn þurfi að liggja inni í marga daga. 

Sex COVID-sjúklingar liggja á Landspítalanum, tveir í öndunarvél á gjörgæslu. „Þetta er kannski innan þeirra marka sem við sættum okkur við, við erum ekki að setja spítalakerfið á hliðina. Svo ég held við getum búist við að sjá þetta á þessu róli áfram, svo fremi að við stöndum okkur í þeim takmörkunum sem við erum með, og að fólk passi sínar eigin sóttvarnir, þá held ég að þetta geti gengið svona,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann telur ólíklegt að það dragi meira úr útbreiðslu smita með þeim aðgerðum sem nú eru í gildi. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir