Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ungu strákarnir kipptu United niður á jörðina

epa09468523 YB's players celebrate winning the UEFA Champions League group F soccer match between BSC Young Boys and Manchester United at the Wankdorf stadium in Bern, Switzerland, 14 September 2021.  EPA-EFE/ALESSANDRO DELLA VALLE
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE

Ungu strákarnir kipptu United niður á jörðina

14.09.2021 - 20:01
Fyrstu leikirnir í Meistaradeild Evrópu fóru fram nú síðdegis. Manchester United heimsótti Young Boys í Sviss en leikurinn tapaðist á síðustu sekúndunum og lokatölur urðu 2-1.

Manchester-menn mættu kátir til leiks eftir góðan 4-1 sigur í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þar sem Portúgalinn Cristiano Ronaldo virtist í fantaformi. Ronaldo var í byrjunarliði liðsins í dag og jafnaði þar með met Iker Casillas yfir flesta spilaða meistaradeildarleiki. Young Boys og United eru í F-riðli ásamt Villarreal og Atalanta. 

Á13. mínútu átti Bruno Fernandes góða sendingu inn fyrir vörn Young Boys, þar var Ronaldo að sjálfsögðu mættur og skaut boltanum milli lappa David von Ballmoos. Á 35. mínútu fór Aron Wan Bissaka svo niður í tæklingu sem dómara leiksins þótt helst til groddaleg og sýndi honum rauða spjaldið. Vonir Young Boys því allt í einu orðnar talsvert meiri og strax í næstu sókn áttu þeir góða atlögu að markinu. Boltinn fór þó ekki inn og staðan 1-0 í hálfleik.

Á 66. mínútu náðu heimamenn að nýta sér liðsmuninn þegar Nicolas Moumi Ngamaleu jafnaði fyrir Young boys. Á síðustu sekúndum leiksins gerði Jesse Lingard svo slæm mistök sem Jordan Siebatcheu nýtti sér og tryggði Young Boys ævintýralegan sigur. United mönnum var hins vegar kippt harkalega niður á jörðina.

Á sama tíma áttust við Sevilla og Salzburg en liðin, auk Wolfsburg og Lille, leika í G-riðli. Strax á 11. mínútu fékk Sevilla dæmda á sig vítaspyrnu þegar Diego Carlos braut á Karim Adeyemi. Adeyemi fór sjálfur á punktinn og það fór ekki betur en svo að hann skaut framhjá. Þetta átti þó ekki eftir að vera síðasta vítaspyrna kvöldsins.

Á 21. mínútu braut Jesús Navas nefnilega á Adeyemi inni í teig og annað víti fór til Salzburgar manna. Hinn 19 ára gamli Luka Sucic fór á punktinn og skoraði örugglega. Hann var hins vegar ekki jafn öruggur stundarfjórðungi seinna þegar Salzburg fékk þriðja vítið eftir enn eitt brotið á Adeyemi. Sucic mætti á punktinn enn að þessu sinni fór boltinn í stöngina. Á 41. mínútu var svo komið að Sevilla að fá vítaspyrnu. Króatinn Ivan Rakitic tók spyrnuna og skoraði af öryggi, staðan því 3-1 í vítum en 1-1 í mörkum þegar liðin gengu til búningsklefa. Á 50. mínútu fékk Youssef En-Nesyri sitt annað gula spjald og þar með rautt og Sevilla menn spiluðu manni færri það sem eftir lifði leiks. 1-1 voru hins vegar lokatölur.