Undanúrslitin klár í Coca-Cola bikar kvenna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Undanúrslitin klár í Coca-Cola bikar kvenna

14.09.2021 - 19:45
Átta liða úrslit Coca-Cola bikars kvenna í handbolta fóru fram í kvöld. Íslandsmeistarar KA/Þórs og bikarmeistarar Fram komust áfram í undanúrslit ásamt Val og FH.

KA/Þór sótti Stjörnuna heim í Garðabæinn og vann stórsigur. Heimakonur voru sterkari fyrstu 10 mínúturnar en svo tóku norðankonur við. Lokatölur í Mýrinni urðu 28-23.

Í Vestmannaeyjum var Valur í heimsókn hjá ÍBV. Eftir jafnræði í byrjun komst Valur í góða forystu og var 15-11 yfir í hálfleik. ÍBV minnkaði muninn í eitt mark í byrjun seinni hálfleiks en Valur sigldi aftur framúr og vann með 24 mörkum gegn 21.

Á Ásvöllum voru bikarmeistarar Fram í heimsókn hjá Haukum. Fram var 18-12 yfir í hálfleik og vann svo 29-25.

Í Víkinni var fyrstudeildarslagur Víkings og FH. FH-liðið reyndist mun sterkara þar og vann með 25 mörkum gegn 17.

Framundan er bikarhelgin, Final Four, og fer hún að þessu sinni fram á Ásvöllum. Undanúrslit kvenna eru 29. september og úrslitaleikurinn svo 2. október.