Telja að flugumferð verði komin í fyrra horf um 2024

14.09.2021 - 23:53
epa07737510 (FILE) - A Boeing 787-9 performs a demonstration flight during the opening day of the 53rd International Paris Air Show at Le Bourget Airport near Paris, France, 17 June 2019 (reissued 24 July 2019). Reports on 24 July 2019 state Boeing posted a 2nd quarter 2019 loss of 2,94 billion USD, mainly attributed to the grounding of its best selling Boeing 737 Max passenger plane. The plane was grounded by aviation regulators and airlines around the world in March 2019 after 346 people were killed in two crashes. The loss was Boeing's biggest in the last ten years.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA - RÚV
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing gerir ráð fyrir því að flugumferð verði orðin jafnmikil og hún var fyrir kórónuveirufaraldurinn í lok árs 2023 eða á fyrstu mánuðum ársins 2024. Darren Hulst, varaforstjóri markaðsdeildar Boeing, segir að stjórnvöld þurfi að slaka á aðgerðum á landamærum til að bregðast við eftirspurn á markaði sem ekki sé hægt að anna að svo stöddu.

Þessi spá Boeing rímar við áætlanir Icelandair en Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sagði í sumar að það geri ráð fyrir að flytja jafn marga ferðamenn til landsins árið 2024 og það gerði árið 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn. „Við erum tilbúin til að gera það miklu fyrr en við höfum líka bolmagn til þess að standa þetta lengi af okkur,“ sagði hann.

Á síðasta ári féll farþegafjöldi í flugi á heimsvísu um sextíu prósent og fyrirtæki í flugrekstri töpuðu alls 126 milljörðum dala samkvæmt Alþjóðasamtökum flugfélaga. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði sex prósent á þessu ári og 4,9 prósent á því næsta.

Hulst segir að samræmdar landamæraaðgerðir séu gríðarlega mikilvægar í efnahagsbatanum. Sameiginlegur skilningur á ferðareglum geri fólki kleift að ferðast að nýju, hjálpi í rekstri fyrirtækja og stuðli að því að samgöngukerfi heimsins komist í fyrra horf.