Segir biðina eftir húsnæði erfiða

14.09.2021 - 21:43
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Erfitt er að bíða í óvissu, segir maður sem enn býr í foreldrahúsum vegna skorts á búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Hann hafi verið í forgangi árið 2017 en viti enn ekki hvenær röðin komi að honum. Annar sem fékk íbúð eftir langa bið segir mikilvægt að geta verið sinn eigin herra.

RÚV greindi frá því í gær að 520 fatlaðir væru á biðlista eftir búsetuúrræði og að margir þyrftu að bíða langt fram á fullorðinsár. „Þegar maður er orðinn fullorðinn og foreldrar manns líka orðnir fullorðnir þá fer að líða að því að fólk vilji lifa sjálfstætt og móta sínar eigin reglur í lífinu. Þetta er líka neyð fyrir foreldrana að hafa fatlað fólk, 27 ára gamalt heima enn þá. Þó svo að þau vilji allt fyrir hvert annað gera, “ Atli Már Haraldsson, félagsliði fyrir fatlaða.

Atli segir að árið 2017 hafi hann fengið að vita að hann væri í forgangi og hafi það vakið von hjá honum, en síðan hafi yngri einstaklingur verið tekinn fram fyrir hann. „Mér skildist að þessi skjólstæðingur sem ég má ekki nefna á nafn hafi verið með hegðunarvandamál og þess vegna fór ég aðeins til hliðar þó svo að það hafi ekki verið sanngjarnt því við erum öll að glíma við einhvern fjanda.“

Og enn veit Atli ekkert um hvenær röðin kemur að honum. „Ég veit ekki hvort ég fái eða ekki og félagsþjónustan getur ekki gefið dagsetningu, mánuði og ár og lætur bara fatlað fólk bíða í óvissunni sem er vont fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir.“

Bið eftir húsnæði er lokið í tilfelli Ólafs Snævars. Hann þurfti að bíða í um tólf ár - sem hann segir brot á réttindum fatlaðs fólks. Hann flutti inn fyrir tæplega tveimur árum en bjó áður í foreldrahúsum. Þó að sambúðin hafi gengið vel segir hann það ekki breyta þörfinni fyrir að búa sjálfstætt. „Nákvæmlega, meira frelsi og maður ræður sér miklu meira sjálfur, þá er maður sinn eigin herra,“ segir Ólafur Snævar Aðalsteinsson, frístundaleiðbeinandi.

Hann er alsæll með íbúðina, staðsetninguna og þá þjónustu sem hann fær. Heimili Ólafs er fallegt og greinilegt að þar er gengið vel um. „Þetta er bara lærð hegðun að maður á að taka til og hafa snyrtilegt.“
 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir