Pólitískt erfiðar ákvarðanir framundan í loftslagsmálum

Mynd: RÚV / Guðmundur Bergkvist
Formaður Loftslagsráðs fagnar því að loftslagsmálin séu loksins orðin að kosningamáli hér á landi. Næsta kjörtímabil verður algjör úrslitastund í loftslagsmálum og erfiðar ákvarðanir bíða stjórnvalda. Formaður ungra umhverfissinna kallar eftir að tekið verði á loftslagsmálunum af festu.

Unga fólkið segir loftslagsmálin mikilvægust

Ungmenni hafa safnast saman á föstudögum til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum - og það fer ekki á milli mála hvað skiptir þau máli í komandi kosningum. „Að það sé skýr stefna í umhverfismálum,“ segir Anna Steinunn Ingólfsdóttir. 

„Loftslagsmál,“ segir Ída María Halldórsdóttir.

„Ungt fólk er kvíðið um hvað framtíðin mun bera í skauti sér ef það er ekki gripið til nógu róttækra aðgerða,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna.

„Aðeins meiri ákveðni og festa í þessum málaflokki,“ segir Anna Steinunn.

„Við á Íslandi erum fullfær um að standa okkur betur. Sérstaklega með jarðvarma og svoleiðis þá mætti setja meiri kraft í þetta,“ segir Þorfinnur Ari Hermann Baldvinsson.  

Úrkomuákefð er orð sem við heyrum oftar - og Seyðfirðingar upplifðu í desember síðastliðnum, hitamet var slegið á Hallormsstað í sumar og fyrir nokkrum árum var fyrsti jökullinn kvaddur.

Fyrsta fjármagnaða aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var kynnt á kjörtímabilinu. Árlega á verkefnisstjórn áætlunarinnar að birta skýrslu um hvernig losun hefur þróast og hvort hún sé í samræmi við áætlanir, samkvæmt ákvæði í loftslagslögum frá 2019. Síðan þá hefur engin skýrsla komið fram og samkvæmt svörum frá umhverfisráðuneytinu verður hún birt á næstu dögum. Fyrir rúmu ári síðan voru framkvæmdir hafnar við 28 af 48 aðgerðum.

Lykilárin í innleiðingu á nýjum lausnum

„Þetta næsta kjörtímabil er algjör úrslitatími,“ segir Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.

„Þetta eru gríðarlega mikilvæg ár,“ segir Tinna.

„Þetta eru mikilvægari fjögur ár en fjögur árin þar á eftir því. Þetta eru lykilárin í innleiðingu á þessum nýju lausnum og breyttri menningu sem við verðum að ná inn til að þetta gangi upp,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Bílaflotinn losaði árið 2018 tæplega milljón tonn af koltvísýringsgildum, markmið stjórnvalda er að draga losunina saman um 40% árið 2030. Það kallar á breytingar á bílaflotanum eða fækkun bíla. Frá árinu 2018 hafa þegar verið nýskráðir 45 þúsund bensín- og dísilbílar, samkvæmt tölum sem Sigurður tók saman í vor, eigi orkuskiptamarkmið stjórnvalda að nást er einungis pláss fyrir 55 þúsund slíka bíla í viðbót á næstu 9 árum. 

„Okkar fókus þarf að vera allur þar, og við þurfum að ná meiri árangri en aðrar þjóðir vegna þess að okkar notkun er bundin algjörlega við vegasamgöngur og svo sjávarútveg,“ segir Sigurður.

Enn í viðjum kolefniseldsneytis

Þriðjungur af þeirri losun sem stjórnvöld bera ábyrgð á að minnka, samkvæmt Parísarsamkomulaginu, er af völdum bíla og vegasamgangna, 18% olíunotkun á fiskiskipum, 10% iðragerjun, 8% nytjajarðvegur, aðrir þættir eins og jarðvarmavirkjanir og urðun úrgangs vega minna. „Við erum enn þá í viðjum kolefniseldsneytis, við treystum á það í undirstöðuatvinnugreinum, bæði í ferðaþjónustu og sjávarútvegi,“ segir Halldór.

„Kannski eru flokkarnir að gleyma því að lausna-verkfærakistan er miklu stærri en fyrir aðra flokka, eins og heilbrigðismál, þarna eru skýr verkfæri sem er hægt að beita,“ segir Sigurður.

Stjórnvöld þurfi að rísa undir ábyrgð

Halldór segir að nú þurfi stjórnvöld að taka erfiðari ákvarðanir en hingað til, ívilnanir séu ekki nóg. „Við höfum veigrað okkur við það að leggja álögur á það sem við þurfum að hætta. Það þurfum við að gera, við þurfum að beita stjórntækjunum miklu betur þannig við fáum þau umskipti í hagkerfinu sem þurfa að verða og þetta getur verið erfitt, pólitískt erfitt, en stjórnmálin þurfa raunverulega að rísa undir þeirri ábyrgð að taka erfiðar ákvarðanir og fjárfesta í hlutum til framtíðar.“

Halldór segir að umræða hér á landi um hvernig framtíð við viljum móta, sé skammt á veg komin. „Það þarf að vera miklu meiri festa. Við þurfum að nálgast þetta eins og um neyðarástand sé að ræða. Loftslagsumræðan hér hefur verið mjög grunn og við erum algjörlega á byrjunarreit í þessari umræðu. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð, þess vegna er það mjög jákvætt að loftslagsmálin séu loksins orðin að kosningamáli hér á landi,“ bætir hann við.

Enginn flokkur fékk 100 stig

Sigurður segir að þótt kosningaloforð flokka í loftslagsmálum séu góðra gjalda verð þá vanti stefnu um hvernig eigi að framkvæma þau. „Það er ekki komið fram hjá flokkunum að mínu mati hvernig menn vilja ná þessu tölfræðilega og tæknilega.“

Ungir umhverfissinnar hönnuðu kvarða til að meta stefnur flokkanna í umhverfismálum. „Það var nú enginn flokkur sem fékk 100 stig, það er alltaf rými fyrir umbætur. Það er ábyrgð stjórnvalda að lyfta þessum kvíða af herðum unga fólksins með því að koma fram með aðgerðir sem taka á þessu ástandi af nógu mikilli festu,“ segir Tinna.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna