Ókeypis akstur í 65 ár

14.09.2021 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá því að flóttamenn komu fyrst til Íslands fyrir 65 árum hefur sama rútufyrirtækið ekið fyrir Rauða Krossinn án þess að taka greiðslu fyrir. Dóttir stofnanda fyrirtækisins segir ánægjulegt að taka þátt í þessu verkefni.

52 Ungverjar á aldrinum 3-54 ára komu hingað á Þorláksmessu 1956. Þetta voru fyrstu flóttamennirnir sem Íslendingar tóku á móti. Skömmu áður hafði landið gerst aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna. 

Guðmundur Jónasson sem rak rútubílaþjónustu setti sig í samband við Rauða Krossinn og bauðst til þess að aka fólkinu án þess að taka greiðslu fyrir.

Signý dóttir hans man vel eftir þessum tíma. „Ég held að það hafi aldrei verið spurning að hjálpa til við þetta verkefni,“ segir hún.  „Fólk var beðið um aðstoð. Það var einhver vakning í þjóðfélaginu og þegar leitað var til föður míns ákvað hann að rukka ekki fyrir aksturinn. Síðan hefur þetta góða samstarf við Rauða Krossinn haldist. Þetta hefur verið ánægjulegt samstarf.“

Í morgun var sonur Signýjar og afabarn Guðmundar við stýrið þegar tvær sýrlenskar fjölskyldur fóru norður í land til Akureyrar. Stefán Gunnarsson tekur undir orð móður sinnar. „Þetta er búið að vera í fjölskyldunni öll þessi ár að bjóða upp á frían akstur. Við erum búin að starfa með Rauða Krossinum alla tíð og tekið þátt i þessum verkefnum að sjá um akstur flóttafólks. Ég er búinn að ferðast til yfir 70 landa í heiminum og veit af eigin reynslu að 99,9% af fólki í heiminum er gott fólk. Þetta fólk sem er að koma núna tilheyrir ábyggilega þeim hópi.“

Tvær fjölskyldur alls níu manns lögðu af stað til Akureyrar um hádegisbil. Börnin í hópnum bíða spennt eftir því að komast í skólann. Ahmet dreymir um að verða læknir, tölvunarfræðingur eða frægur fótboltamaður. Rimal stefnir á að verða læknir. Stoltir feður þeirra segjast vilja læra tungumálið og hefja nýtt líf, fyrir börnin.