Landskjörstjórn staðfestir ákvörðun um að hafna lista

14.09.2021 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landskjörstjórn hefur staðfest ákvörðun yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis þess efnis að hafna framboði Ábyrgrar framtíðar í kjördæminu.

Flokkurinn hafði skilað meðmælendalistum í tveimur kjördæmum, Reykjavík norður og Suðurkjördæmi. Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis hafnaði lista flokksins þar sem 31 undirskrift vantaði til að ná tilskildum fjölda.

Framboðið kærði þá ákvörðun til landskjörstjórnar. Í samtali við fréttastofu segir Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, að ákvörðunin hafi verið staðfest á fundi landskjörstjórnar nú í hádeginu. Þá voru framboðslistar annarra framboða staðfestir og er nú endanlega ljóst hvaða flokkar eru í framboði.

Ábyrg framtíð er nýr flokkur sem hefur það helst á stefnuskránni að afnema allar samkomutakmarkanir, en flokkurinn leggur einnig áherslu á tjáningarfrelsi, geldur varhug við notkun bóluefna og vill aukið frelsi í heilbrigðismálum.

Flokkurinn hafði skilað inn meðmælendalista, en síðar hafði komið í ljós að sum þeirra voru ógild þar sem meðmælendur voru ýmist búsettir utan kjördæmis eða höfðu skráð sig í tvígang, bæði rafrænt og á pappír. 

Jóhannes Loftsson, formaður flokksins, er ósáttur við að flokknum hafi aðeins verið gefnar þrjár og hálf klukkustund til að safna viðbótarmeðmælum eftir að það varð ljóst. Í víðfeðmu kjördæmi dugi það ekki til. Þá segir hann að einhverjir hafi orðið varir við tæknilega örðugleika þegar þeir hugðust safna meðmælum rafrænt.

Greint var frá vandræðum með rafræna meðmælasöfnun í síðasta mánuði, en samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu var það vandamál leyst í síðasta mánuði.