Hafi einhver orðið fyrir druslusmánun þá var það Ásta

Mynd: Einkasafn / RÚV

Hafi einhver orðið fyrir druslusmánun þá var það Ásta

14.09.2021 - 13:02

Höfundar

„Þetta var bæði brynjan hennar og líka það sem olli henni mestum sársauka,“ segir Friðrika Benónýsdóttir um Ástu Sigurðardóttur, rithöfund og myndlistarkonu. Ævisaga hennar um Ástu, sem kom út fyrir um 30 árum, er fáanleg á ný.

Árið 1992 kom út ævisaga Ástu Sigurðardóttur, Minn hlátur er sorg, eftir Friðriku Benónýsdóttur. Bókin hefur verið ófáanleg um langt skeið en hefur nú verið endurútgefin vegna mikillar eftirspurnar, sem Friðrika rekur til þess að leiksýning um ævi Ástu er væntanleg á fjalir Þjóðleikhússins.

„Það er gaman að þessi bók skuli koma út núna í allri þessari umræðu um druslusmánun,“ segir Friðrika í viðtali í Víðsjá á Rás 1. „Vegna þess að hafi einhvern tímann einhver kona á Íslandi orðið fyrir druslusmánun, þá var það Ásta. Þegar hún skrifaði sögu um eigin upplifun af nauðgun eftir samkvæmi í Reykjavík, þá auðvitað, eins og gerist enn í dag, var bærinn algjörlega á móti henni. Hún gæti sjálfri sér um kennt, hún klæddi sig ögrandi og daðraði og þannig átti hún það bara skilið að einhver notfærði sér það.“

Friðrika segist búast fastlega við því að það hefði verið auðveldara fyrir Ástu að vera uppi á okkar dögum. „En það gleymist nú oft í umræðunni um hana, hún er svolítið ædolíseruð, að hún var ofboðslega veikur alkóhólisti og var að sumu leyti sinn eigin versti óvinur. Hún er svona hin íslenska Marilyn Monroe, tragísk fígúra.“

Ásta birtist henni í draumi

„Ég er af þeirri kynslóð sem dýrkaði Ástu. Hún var fyrirmynd allra ungra kvenna sem vildu verða eitthvað í menningargeiranum á þeim árum,“ segir Friðrika. Sjálf játar hún þó að hafa ekki vitað mikið um hana áður en hún skrifaði bókina. „Eins hryllilega væmið og klént og það hljómar, þá byrjaði þetta allt saman með því að mig dreymdi hana. Mig dreymdi eina senuna í bókinni og skrifaði hana þegar ég vaknaði, mörgum árum áður en hún var síðan skrifuð.“

Hún fór ekki hefðbunda leið við að gera ævi Ástu og persónu skil í bókinni og ekki voru allir sáttir við aðferðir hennar. 

„Ég hef oft orðið mjög pirruð eftir að hafa lesið ævisögur fólks sem ég var forvitin um og fengið að vita allt um það hvað það lærði, gerði, hvert það fór eða hitti, en hef enga hugmynd um hvers konar manneskjur þau voru. Mig langaði til þess að þessi bók yrði um manneskjuna Ástu. Þó ég hafi auðvitað enga forsendu til þess að endurskapa hennar rödd, þar sem ég hitti hana aldrei og þekkti hana ekki, þá langaði mig samt til þess að hennar rödd heyrðist.“

Friðrika var skömmuð fyrir það á sínum tíma að bókin hefði ekki verið tæmandi upptalning á öllu sem Ásta tók sér fyrir hendur í lífinu. „Fræðifólk var ekki hrifið af því að ég skyldi vera að búa til konu sem ég þekkti ekki neitt. En það var alltaf hugsunin. Eins og ég segi í innganginum: Þetta átti að vera mynd af henni, ekki annáll um lífshlaup hennar.“

Markaði sérstöðu með því að ögra

Ásta þótti ögrandi í smáborgaralegu og þröngsýnu samfélagi Reykjavíkur um miðja síðustu öld. „Sumir, sem ég talaði við þegar ég vann við bókina, sögðu að nóg væri að ung stúlka gengi um bæinn í buxum til að allt færi á annan endann á þessum tíma. Hún gekkst upp í því að ögra. Þetta var hennar leið, að einhverju leyti, til þess að marka sér sérstöðu.“

Í augum borgaranna varð Ásta eins konar femme fatale. „Þetta var bæði brynjan hennar og líka það sem olli henni mestum sársauka. Hún var svo ung, hún var rétt um tvítugt þarna, auðvitað langaði hana eins og allt fólk, að passa inn og vera meðtekin og viðurkennd.“

En svo er það listin hennar. Hún skrifaði ljóð, málaði og teiknaði. Hæfileikar Ástu leyndu sér ekki. „Málfarið hennar og tökin sem hún hafði á íslensku sem tvítug stelpa voru alveg ótrúleg. Hún kemur auðvitað beint af Snæfellsnesinu, af afskekktu pínulitlu býli, þar sem voru bara hún, mamma, hennar, pabbi og systir. Allur félagsskapur sem hún hafði var í bókum, en hana langaði samt alltaf að verða myndlistarmaður. Það var þar sem draumurinn lá.“

Guðni Tómasson ræddi við Friðriku Benónýsdóttur í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

Nektin og sígarettan ollu usla og hneykslan

Bókmenntir

Fjallar um áður óbirt sendibréf Ástu Sigurðardóttur