Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hækkun á álverði skilar Landsvirkjun milljörðum króna

14.09.2021 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri Landsvirkjunar segir að mikil hækkun á álverði skili Landsvirkjun milljörðum króna í auknar tekjur. Verðið hvetji viðskiptavini til að fullnýta raforkusamninga. Heimsmarkaðsverð á áli hefur ekki verið hærra í þrettán ár, og verðhækkunin nemur nú um það bil fjörutíu prósentum það sem af er ári.

„Þetta er sveiflukenndur markaður þannig að maður þarf að passa sig að lesa ekki alveg svona í dagsgildin en við erum að tala um umtalsverða hækkun frá árinu í fyrra en þá þarf líka að hafa í huga að í fyrra var mjög lágt verð, en yfir lengri tíma er þetta líka mjög gott verð sem álið er í núna,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Hann segir hækkunina hafa jákvæð áhrif á rekstur Landsvirkjunar sem og á viðskiptavini fyrirtækisins. „Í fyrsta lagi má segja að þetta sé hvatning hjá okkar viðskiptavinum til að fullnýta verksmiðjurnar og að fullnýta raforkusamningana sem þýðir aukin sala og svo er í ákveðnum samningum hjá okkur álverðstenging sem þýðir þá hærri tekjur líka,“ segir Hörður.

Ekki liggur fyrir hversu mikil tekjuaukningin verður hjá Landsvirkjun. „Við höfum ekki lagt mat á það en þetta er sambland af magni og verði en það er verið að tala þar um milljarða tekjuaukningu,“ segir hann.