Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Forsetinn baðst afsökunar

14.09.2021 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, baðst í gær afsökunar á því að hafa notað orðið „fáviti" i umræðu um viðkæm og erfið mál. Starfsmaður forsetaembættisins sem sekur var um kynferðislega áreitni í starfsmannaferð í París fyrir tveimur árum hefur látið af störfum.

Umræða um kynferðislegt ofbeldi, áreitni, þöggun og meðvirkni hefur verið fyrirferðamikil síðustu daga og vikur. Spjótum hefur verið beint að Knattspyrnusambandinu og starfsmönnum þess, stjórnarmönnum og leikmönnum.  Forseti Íslands hefur tekið þátt í þessari umræðu.
 
 „Við þurfum réttlæti, sanngirni og viðurlög við lögbrotum en líka umræðu, fræðslu og leiðir til að leyfa fólki að bæta ráð sitt, sýni það iðrun og eftirsjá, " segir forsetinn í færslu á Facebook í gær. Þar biðst hann afsökunar á að hafa notað orðið "fáviti" í umræðu um viðkvæm og erfið mál og tekið almennt of sterkt til orða.

„Ég mun ekki nota orðið aftur í þessu samhengi þótt það hafi verið gert með þessum hætti í fræðslu í grunnskólum landsins. Það getur kannski átt við þar en alls ekki af minni hálfu. Ég sé svo sannarlega eftir því og ítreka að ég bið allt það fólk, sem ég særði, afsökunar."
Í september 2019 varð starfsmaður forsetaembættisins sekur að kynferðislegri áreitni og ósæmilegri hegðun gagnvart tveimur einstaklingum í náms- og starfsmannaferð á vegum embættisins í París. Sá fékk skriflega áminningu og var sendur í leyfi en snéri síðan aftur til starfa að uppfylltum skilyrðum, eins og segir í yfirlýsingu Forseta Íslands í október 2019.

Sigurður G Guðjónsson hæstarréttarlögmaður rifjar málið upp i færslu á Facebook og gagnrýnir aðkomu  Guðna Th Jóhannessonar að málinu. Fréttastofan óskaði eftir viðtali við Forsetann en fékk þau svör að hann myndi ekki tjá sig um færslur á Facebook. Í skriflegu svari frá skrifstofustjóra kemur fram að hinn brotlegi hafi beðist afsökunar og þolendur hafi verið upplýstir. Hinum brotlega var heimilað að snúa aftur að uppfylltum skilyrðum.  Hann lét af störfum í sumar.

Ævar Pálmi Pálmason yfirmaður kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í samtali við fréttastofuna að kæra sem tengist forsetaembættinu hafi borist lögreglunni. Hann segir að kæran hafi borist í sumar en vildi ekki tjá sig nánar um málið.   
 

Arnar Björnsson