Félagarnir föðmuðust og grétu saman í búningsklefanum

Mynd: RÚV / RÚV

Félagarnir föðmuðust og grétu saman í búningsklefanum

14.09.2021 - 16:07

Höfundar

Liðsfélagar Þorsteins V. Einarssonar í knattspyrnudeild ÍR urðu fyrir sameiginlegu áfalli þegar þjálfarinn þeirra lést skyndilega. Þeir féllust í faðma og studdu hver annan í sorginni, sem var í takt við þann kærleika og samstöðu sem Þorsteinn upplifði í búningsklefanum. Eitraðri fótboltamenningu eða klefamenningu fann hann fyrir, hún var áþreifanleg en grasseraði ekki innan búningsklefans.

Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur og aktívisti, sem heldur úti Facebook-síðunni Karlmennskan og samnefndu hlaðvarpi, er alinn upp í Grafarvorginum, hjá ömmu sinni og afa að miklu leyti. „Ég átti heima í Fannafold en þegar ég var unglingur flutti mamma í Engjahverfið, en ég er alla mína ævi í Foldaskóla og bý rosalega mikið hjá ömmu og afa í Fannafold,“ segir Þorsteinn um uppvöxtinn í samtali við Lovísu Rut Kristjánsdóttur í Lagalistanum á Rás 2. Móðir hans var ung þegar hann kom í heiminn og afi hans og amma sáu mikið um hann. „Þau voru kannski fullafskiptasöm að mömmu mati, en mamma var dálítið að flytja. Hún bjó í Kópavogi og hér og þar, en grunnurinn minn er kannski bara æskuheimilið mitt heima hjá ömmu og afa.“

Lagði meiri áherslu á skemmtanalífið en námið

Hann kláraði Foldaskóla og þaðan lá leiðin í Borgarholtsskóla þar sem hann viðurkennir að hafa einbeitt sér meira að gleðskapnum sem fylgdi en námi. „Ég var í skemmtanalífinu, í skemmtinefnd og málfundafélagi og var með smá vesen. Að mörgu leyti var þetta frábær tími og ég á mjög hlýjar minningar úr Borgó þó ég hafi ekki verið metnaðarfullur námsmaður,“ segir hann.

Lítill í sér og óöruggur með enskuna í Bandaríkjunum

Um miðja skólagöngu fluttist Þorsteinn í eina önn til til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Bellingham, þar sem faðir hans hefur búið nánast alla ævi Þorsteins. Þar gekk hann í framhaldsskóla í nokkra mánuði með það að markmiði að ná almennilegum tökum á ensku. Það gekk þó ekki eins vel og lagt var upp með. „Þetta var mjög vandræðalegt. Krakkarnir tóku mér svakalega vel og stjúpsystkin mín úti drógu mig inn í hópinn,“ segir Þorsteinn.

Stjúpsystir hans var klappstýra og hann mætti sjálfur á ekta amerískt prom og lenti í ævintýrum sem minntu um margt á unglingakvikmyndir. En það varð honum fjötur um fót að ná enskunni ekki almennilega. „Af því að ég gat ekki almennilega tjáð mig því ég var lítill í mér og óöruggur með enskuna þá náði ég ekki að njóta almennilega.“

Fékk sálrænt högg í andlitið sautján ára

Þorsteinn var lengi í fótbolta, þótti efnilegur markvörður og leit lengi fyrst og fremst á sig sem slíkan. Hann byrjaði að æfa með Fjölni í Grafarvogi en fór svo í Breiðablik þar sem hann fékk að æfa með meistaraflokki en sat gjarnan á varamannabekknum fyrir Hjörvar Hafliðason, sem í dag heldur úti hlaðvarpinu vinsæla Dr. Football. Hann spilaði með ÍR áður en hann lagði skónna á hilluna aðeins 26 ára.

„Það er eiginlega skrýtið að ég hafi klárað menntaskóla því ég sá bara fyrir mér að ég yrði atvinnumaður í fótbolta, en ég fékk högg í andlitið, sálrænt, þegar ég var sautján átján ára.“ Þá lék Þorsteinn með 17 ára landsliðinu og var sendur á reynslu til Englands. Þegar Þorsteinn mætti þangað spenntur fyrir verkefninu kom í ljós að þjálfarinn hans hafði ekki farið með alveg rétt mál þegar hann lýsti leikmanninum. „Hann hafði hliðrað með hversu hávaxinn ég væri,“ rifjar Þorsteinn upp. „Það kemur strax í ljós að það eru ákveðin vonbrigði með hæðina mína. Ég fæ tækifæri en svo bara: Nei, þú ert of lítill. Ég bara: Ha? Draumar mínir fóru þarna að bresta.“

Fram að þessu hafði sjálfsmynd hans byggst á því að hann væri fótboltamaður sem ætlaði sér að spila með efstu deild áfram. Hann hélt þó áfram að spila og nokkuð vel, enda staðráðinn í að afsanna að hæðin skipti svo miklu máli. „Þetta háði mér ekkert þannig, en eftir á að hyggja held ég að rýmisgreindin hafi háð mér meira,“ segir hann kíminn.

Sterk tenging og djúp vinátta í klefanum

Síðustu vikur, í kjölfar ásakana sem beinst hafa að leikmönnum íslenska fótboltalandsliðsins um kynferðisbrot og gagnrýni á stjórn KSÍ, hefur eitruð karlmennska í íþróttum verið mikið í umræðunni. Þá hefur svokölluð klefamenning verið nefnd og rætt hefur verið hvað þar fer fram. Sjálfur segist Þorsteinn hafa góða innsýn í það sem um ræðir en hann hefur til dæmis aldrei minnst á það sem á ensku er kallað locker room talk í fyrirlestrum sínum, enda upplifði hann ekki sem svo að menningin kristallaðist í hegðun þar inni.

Viðtal við Pétur Marteinsson um þessi málefni fékk Þorstein til að hugsa og hann tekur í sama streng. „Akkúrat klefinn sjálfur var ekkert hræðilegur. Það var rosalega sterk tenging á milli okkar, djúp og góð vinátta og karlasamstaða. Við vorum nánir, og gegnum alls konar,“ segir Þorsteinn.

Gengu í gegnum sameiginlega sorg þegar þjálfarinn lést

Stærsta áfallið sem liðið hans, ÍR, gekk gegnum saman var þegar liðið missti þjálfara sinn Ásgeir Elíasson. „Við vorum mættir allir á leik en hann var ekki mættur, sem er ótrúlega skrýtið. Við förum á liðsfund og hann kemur bara ekki,“ segir Þorsteinn. Einn liðsstjórinn ákvað að fara heim til hans og athuga hvort nokkuð amaði að, „Og finnur hann látinn heima hjá sér. Við fórum allir að gráta og vorum í miklu áfalli. Þarna hélt hver utan um annan og vorum að gráta og syrgja, gegnum þetta saman.“

Eftir áfallið gekk liðinu ekki vel og sénsinn að fara upp um deild, sem fyrir andlátið var alveg raunhæf hugmynd, varð að engu. „Þetta hafði áhrif á spilamennskuna en þarna reyndi á samstöðuna.“

Þorsteinn heldur því þó ekki fram að sú klefamenning sem hefur verið fjallað um hafi farið fram hjá honum. Hún birtist annars staðar, „þegar við förum á djammið og erum annars staðar, úr klefanum“.

Leit ekki á sig sem femínista fyrr en eftir sjálfsskoðun

Þorsteinn útskrifaðist sem kennari árið 2001 en starfaði aldrei sem slíkur. Hann varð forstöðumaður í félagsmiðstöð og svo deildarstjóri. Það var á svokölluðu drag-kvöldi með unglingunum sem hann fékk nokkurs konar hugljómun. Hann hafði verið klæddur upp í drag frá toppi til táar, í kvenmannsföt með andlitsfarða og og neglurnar hans málaðar með litríku naglalakki. Eftir skemmtunina kom í ljós að það var enginn naglalakkshreinsir á svæðinu svo hann þurfti að láta sig hafa það að yfirgefa félagsmiðstöðina með málaðar neglur.

Þarna var hann nýhættur í fótbolta og kveðst ekki hafa litið á sig sem femínista eða spáð í feðraveldi, kynjakerfi eða ofbeldi. Þessi naglalökkun og að fara út á meðal fólks með naglalakkið, og eigin tilfinning gagnvart því, varð til þess að hann fór í sjálfsskoðun sem leiddi hann á þann stað sem hann er nú á. „Ég á samtöl um þessa karlmennsku, kynjahlutverk, kynjakerfi og jafnréttismál og fer svo að tala svona um karlmennsku árið 2018 að frumkvæði Sóleyjar Tómasdóttur,“ segir Þorsteinn. „Hún kemur með þá hugmynd að hvetja stráka til að deila sögum úr lífi sínu og hvernig [karlmennskan] hefur litað þeirra líf.“

„Það var eldur í mér sem ég vildi elta“

Mörg hundruð strákar deildu sögum sínum með Þorsteini sem nýtti þær í ítarlegt meistaraverkefni, og í kjölfarið stofnaði hann miðil sinn Karlmennskuna. „Ég hef frá 2014 leitað að leið til að hreyfa við mönnum eins og mér. Mig langaði að ná til manna sem nenna ekki þessu jafnréttiskjaftæði, láta sig þetta ekki varða og sjá ekki að það eru ákveðnar hugmyndir sem við erum að beygja okkur undir,“ segir Þorsteinn sem hefur verið á þeirri vegferð síðan. „Það var eldur í mér sem ég vildi elta og ég fór því í kynjafræðina.“

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Þorstein V. Einarsson í Lagalistanum á Rás 2. Hér má hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Ekki má bæta á vanlíðan þolenda

Mannlíf

„Eflaust verður rætt um mig í einhverjum búningsklefum“