Ætti að vera erfðafræðilega ómögulegt

14.09.2021 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: Andrés Hjaltason - RÚV
Á bænum Njarðvík í Borgarfirði eystra er nokkuð sérkennilegur hrútur, sá er svartur öðrum megin og hvítur hinum megin, kollóttur öðrum megin og hyrndur hinum megin.

Aldrei heyrt af öðru eins dýri

Andrés Hjaltason er bóndi í Njarðvík. Honum þótti hrúturinn nokkuð óvenjulegur þegar hann fæddist, þar sem litaskiptingin var afar óvenjuleg. Þegar hrúturinn kom af fjalli nú í september brá Andrési nokkuð í brún þar sem horn hafði vaxið öðrum megin á höfði hrútsins en ekkert var hornið hinum megin.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Andrés Hjaltason - RÚV

Sérfræðingar í sauðfé hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hafa aldrei heyrt af slíkri skepnu. Þau segja að það ætti að vera erfðafræðilega ómögulegt að sauðkind sé bæði hyrnd og kollótt. Næsta skref sé að skoða hrútinn og meta það hvernig slík skepna hefur orðið til en líklegt er að um samruna tveggja eggja í móðurkviði sé að ræða þó ekki sé hægt að segja það með vissu að svo stöddu.

Anna Þorbjörg Jónasdóttir