Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áður óþekkt lag með John Lennon boðið upp

14.09.2021 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Kassetta með rúmlega hálftíma löngu viðtali við John Lennon og Yoko Ono verður boðin upp hjá uppboðshúsi Bruun Rasmussen síðar í þessum mánuði. Fjórir ungir skólapiltar tóku viðtalið og hafa varðveitt kassettuna allar götur síðan. Á henni er að finna áður óþekkt lag sem Lennon syngur.

John Lennon og Yoko Ono komu til smábæjar á Norður-Jótlandi í desember 1969 og dvöldust þar fram yfir áramót. Þótt þau létu lítið fyrir sér fara spurðist fljótt út að frægasta tónlistarpar heimsins væri þar statt. Þegar blaða- og fréttamenn tók að drífa að víða að úr heiminum ákváðu þau að efna til blaðamannafundar í janúarbyrjun.

Fjórir piltar sem sáu um skólablaðið í miðskóla í smábænum Brovst í nágrenninu fengu leyfi skólstjórans til að fara og hitta parið. Þegar þeir mættu hékk uppi tilkynning um að fundurinn hefði verið færður á annan stað. Þangað börðust þeir í vetrarfærðinni, en þegar þeir mættu var fundurinn búinn.

Fjórmenningarnir ungu báru sig illa, þannig að þeir fengu einkafund með hjónunum. Afraksturinn er 33 mínútna upptaka, hljóðrituð á kassettutæki. Þar heyrast John og Yoko ræða friðarmálefni og hann syngur Give Peace A Chance og lagið Radio Peace, sem ekki virðist hafa verið flutt síðan.

Kassettan verður boðin upp hj´Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn 28. september. Gert er ráð fyrir að hún seljist fyrir jafnvirði fjögurra til sex milljóna króna. Jafnframt gefst söfnurum kostur á að eignast 29 myndir sem skólapiltarnir í Brovst tóku af þeim John og Yoko til að birta í skólablaðinu. 
 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV