Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stjórnin heldur velli með minnsta mögulega meirihluta

13.09.2021 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: Gallup
Ríkisstjórnin heldur velli með minnsta mögulega meirihluta samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Helstu breytingar á fylgi flokka milli seinni hluta ágústmánaðar og fyrri hluta september eru að fylgi Framsóknarflokksins eykst um rúmlega þrjú prósentustig. Þrettán prósent segjast myndu kjósa flokkinn færu alþingiskosningar fram í dag en það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í janúar árið 2015.

Þá segjast 22 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, fylgi hans mælist rúmlega tveimur prósentustigum lægra en í síðustu mælingu í ágúst en tekið er fram að lækkunin nái ekki að vera tölfræðilega marktæk. Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka, mest um 0,6 prósentustig.

Tólf prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn, rúmlega ellefu prósent Pírata, ellefu prósent Samfylkinguna, tæplega tíu prósent Viðreisn, tæplega átta prósent Sósíalistaflokk Íslands, tæplega átta prósent Miðflokkinn, um fimm prósent Flokk Fólksins og 0,5 prósent Frjálslynda lýðræðisflokkinn.

Samkvæmt könnuninni mælast stjórnarflokkarnir með 46,7 prósent fylgi, missa 6,1 prósentustig frá síðustu alþingiskosningum, og fá 32 þingmenn kjörna. Ríkisstjórnin heldur því velli með minnsta mögulega meirihluta.

Framsókn

Framsókn fær átta kjördæmakjörna þingmenn, engan í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, er oddviti. Flokkurinn fær einn þingmann í Reykjavíkurkjördæmi suður, tvo í Suðvesturkjördæmi, tvo í Norðvesturkjördæmi, tvo í Norðausturkjördæmi og einn í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fær einn uppbótarþingmann samkvæmt könnuninni.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn fær fimmtán kjördæmakjörna þingmenn; þrjá í Suðurkjördæmi, tvo í Norðausturkjördæmi, tvo í Norðvesturkjördæmi, fjóra í Suðvesturkjördæmi, tvo í Reykjavíkurkjördæmi suður og tvo í Reykjavíkurkjördæmi norður. Flokkurinn fær engan uppbótarþingmann samkvæmt könnuninni. Ef fer sem horfir falla Birgir Ármannsson, sem skipar þriðja sæti í Reykjavík suður, og Brynjar Níelsson, sem skipar þriðja sætið í Reykjavík norður, af þingi.

Samfylkingin

Samfylkingin fær fimm kjördæmakjörna þingmenn. Samkvæmt könnuninni fær flokkurinn einn þingmann í Reykjavíkurkjördæmi suður, tvo í Reykjavíkurkjördæmi norður, einn í Suðvesturkjördæmi og einn í Norðausturkjördæmi. Jóhann Páll Jóhannsson, sem skipar annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður, kemst á þing en Rósa Björk Brynjólfsdóttir verður ekki kjördæmakjörin. Þá fellur Oddný Harðardóttir af þingi. Þess ber þó að geta að flokkurinn fær tvo uppbótarþingmenn.

Vinstri græn

Vinstri græn fá sex kjördæmakjörna þingmenn. Flokkurinn mælist með tvo menn inni í Reykjavíkurkjördæmi suður, einn þingmann í Reykjavíkurkjördæmi norður, einn þingmann í Suðvesturkjördæmi og einn þingmann í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rafney Magnúsdóttir er því ekki kjördæmakjörin samkvæmt könnuninni. Þá fær flokkurinn einn mann kjördæmakjörinn í Norðausturkjördæmi og síðan tvo uppbótarþingmenn.

Píratar

Píratar fá sjö kjördæmakjörna þingmenn og engan uppbótarþingmann. Flokkurinn mælist með einn mann inni í Reykjavíkurkjördæmi suður, tvo í Reykjavíkurkjördæmi norður og Andrés Ingi Jónsson verður þá áfram þingmaður, einn í Suðvesturkjördæmi, einn í Norðvesturkjördæmi, einn í Norðausturkjördæmi og einn í Suðurkjördæmi.

Viðreisn

Viðreisn fær fimm kjördæmakjörna þingmenn; einn í Reykjavíkurkjördæmi suður, einn í Reykjavíkurkjördæmi norður, tvo í Suðvesturkjördæmi, einn í Suðurkjördæmi og enga í Norðvesturkjördæmi eða Norðausturkjördæmi. Miðað við könnunina kemst Guðmundur Gunnarsson því ekki inn á þing og Jón Steindór Valdimarsson fellur af þingi. Sigmar Guðmundsson mælist inni. Þess ber einnig að geta að flokkurinn fær einn uppbótarþingmann samkvæmt könnuninni.

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins fær einn þingmann kjörinn, Ásthildi Lóu Þórsdóttur í Suðurkjördæmi. Inga Sæland, formaður flokksins, og Guðmundur Ingi Kristinsson, falla af þingi samkvæmt þjóðarpúlsinum.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn fær þrjá kjördæmakjörna þingmenn; einn í Norðvesturkjördæmi, einn í Norðausturkjördæmi og einn í Suðurkjördæmi. Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigurður Páll Jónsson og Karl Gauti Hjaltason verða því ekki kjördæmakjörin samkvæmt könnuninni en Miðflokkurinn fær tvo uppbótarþingmenn.

Sósíalistaflokkur Íslands

Sósíalistaflokkur Íslands fær fjóra kjördæmakjörna þingmenn; Katrínu Baldursdóttur í Reykjavíkurkjördæmi suður, Gunnar Smára Egilsson í Reykjavíkurkjördæmi norður, Harald Inga Haraldsson í Norðausturkjördæmi og Guðmund Auðunsson í Suðurkjördæmi. Flokkurinn fær síðan einn uppbótarþingmann.

Könnunin var gerð dagana 30. ágúst til 12. september. Heildarúrtaksstærð var 5.828 manns og þátttökuhlutfall var 51,1 prósent. Nokkur munur var á fjölda þátttakenda eftir kjördæmum og getur það haft áhrif á fjölda þingmanna hvers flokks í könnuninni.