Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir brýnt að hækka framfærslu og draga úr skerðingum

13.09.2021 - 19:32
Mynd: Þór Ægisson / Skjáskot
„Mann langar til að búa við góðar aðstæður,“ segir fötluð einstæð móðir. Ný rannsókn á fjárhagsstöðu fatlaðs fólks var kynnt í dag, formaður Öryrkjabandalagsins segir stöðuna slæma og bregðast verði við henni.

Rannsóknin, sem var unnin af Vörðu, rannsóknarstofnun Vinnumarkaðarins, var kynnt í dag. Þar kom meðal annars fram að 80% fatlaðs fólks eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman, jafn hátt hlutfall neitar sér um heilbrigðisþjónustu, rúm 40% fá fjárhagsaðstoð frá vinum eða ættingjum og 12%  þiggja matargjafir.

„Þetta sýnir svart á hvítu að fjárhagsstaða fatlaðs fólks er mjög slæm,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins um niðurstöður rannsóknarinnar. Undir það tekur Ásta Þórdís Guðjónsdóttir formaður PEPP - Samtök fólks í fátækt. „Þetta er sá hópur sem hefur það einna verst í okkar samfélagi. Innan okkar hóps vitum við að öryrkjar hafa það mjög erfitt og þá sérstaklega þeir sem eru með börn.“

Ótrúlega sorgleg staða

Staða einstæðra fatlaðra foreldra var sérstaklega skoðuð. Níu af hverjum tíu þeirra eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman, rúmur helmingur getur ekki keypt nauðsynlegan fatnað og í kringum einn af hverjum fimm getur ekki greitt fyrir frístund barna eða fyrir mat í skóla. Hildur Oddsdóttir er öryrki og einstæð tveggja barna móðir og þekkir þennan veruleika. „Það er alveg ótrúlega sorglegt að maður geti ekki náð endum saman út mánuðinn,“ segir Hildur.

Birna Kristín Sigurjónsdóttir er einnig öryrki og einstæð móðir: „Ef það kemur auka lyfjakostnaður eða eitthvað slíkt þá þarf ég að taka það af einhverju öðru. Það er bara svoleiðis.“

Meðal þess sem fram kemur í könnuninni er að andleg vanlíðan er algeng meðal fatlaðs fólks og hún eykst í takt við fjárhagserfiðleika. „Þetta hefur andleg áhrif á mann. Að þurfa stöðugt að vera í einhverju stressi að spá hvernig þessi mánuður muni fara og þeir næstu,“ segir Birna.

Leggur til hærri lífeyri og minni skerðingar

Hildur segir að það reyni á að þurfa að velta hverri einustu krónu fyrir sér. „Mann langar til að búa við góðar aðstæður en þær eru því miður ekki í boði.“ „Það þyrfti að byrja á því að endurskoða allt frá grunni myndi ég segja,“ segir Hildur spurð hvaða leiðir hún sjái til úrbóta.  „Ég sé ekki fram á að geta safnað mér fyrir húsnæði eða öðru. Þannig að það þyrfti einhversstaðar að vera meiri aðstoð fyrir okkur,“ segir Birna.

„Þessi hópur getur ekki lifað á þessu og það er ekki nóg að vera á lífi - við þurfum að eiga líf,“ segir Ásta.

„Það þyrfti að hækka örorkulífeyri,“ segir Þuríður Harpa. „Það þarf að hækka framfærslu frá TR. Það er bara númer 1,2 og 3. Og það verður að draga úr skerðingum þannig að fólk sem hefur getu og vilja til að vinna geti tekið þátt á vinnumarkaði.“