Rafmagni hleypt á Kröflulínu 3

13.09.2021 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sölvi Andrason
Rafmagni hefur nú verið hleypt á Kröflulínu 3, nýja háspennulínu frá Kröfluvirkjun austur í Fljótsdalsstöð. Forstjóri Landsnets segir þetta mikilvægan áfanga í uppbyggingu raforkukerfisins.

Tæknimenn Landsnets sáu til þess að allt gengi eins og til var ætlast þegar rafstraumi var hleypt á þessa nýjustu raflínu í flutningskerfinu. Framkvæmdir hófust sumarið 2019 og var línan byggð við afar erfiðar aðstæður, heimsfaraldur og slæmt veður.

Heildarkostnaður er 7,6 milljarðar króna

Kröflulína þrjú er um 120 kílómetra löng og liggur frá Kröflu austur í Fljótsdal. Í henni eru nærri 330 möstur sem halda uppi meira en þúsund tonnum af háspennuvír. Heildarkostnaður við verkið er 7,6 milljarðar króna sem er nokkuð undir kostnaðaráætlun Landsnets.

Mjög mikilvægur þáttur í uppbyggingu raforkukerfisins

„Það er gríðarlega mikilvægt að það sé búið að spennusetja þessa fyrstu línu af mörgum í mikilli uppbyggingu á landinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þetta verði til þess að tryggja betra raforkuöryggi og þá sérstaklega á landsbyggðinni. „Þannig að strax í vetur munum við ná verulegum árangri með þessari einu línu því hún tengir saman Fljótsdalsvirkjun og virkjanirnar í Þingeyjarsýslum, það er að segja Þeistareykjavirkjun og Kröfluvirkjun. Hún myndar þannig mjög sterkan kjarna sem á eftir að nýtast Norðlendingum og Austfirðingum vel ef einhver áföll dynja á.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Framkvæmdir við byggingu Kröflulínu 3

Varðar brautina fyrir aðrar nýjar háspennulínur

Þá sé Kröflulína 3 löng og liggi yfir erfitt svæði þar sem rafmagnstruflanir hafi hingað til verið algengar. „Hún varðar einnig brautina fyrir hinar línurnar sem á eftir koma, sem munu fara um allt Norðurland, Vesturland og enda í Hvalfirði og tengja þannig saman landshlutana. Það er eitt af okkar mikilvægustu verkefnum sem við horfum á nú í dag.“

Tafir við gerð Hólasandslínu

Næsta stóra línuverkefni hjá Landsneti segir Guðmundur að sé bygging Hólasandslínu, háspennulínu frá Hólasandi til Akureyrar. „Við höfðum gert okkur vonir um að ljúka þeirri línuframkvæmd núna í vetur, fyrir áramótin, en vegna aðstæðna núna í vor þá er það kannski ólíklegt. En við keppumst enn við og sjáum hvað setur.“

Mikilvæg verkefni til að nýta betur græna orku

Hann segir bæði þessi verkefni hafa verið lengi í undirbúningi, enda séu þau afar mikilvæg. „Það er verið að kolefnisjafna hérna á Íslandi og þetta eru mikilvæg verkefni til þess að nýta betur græna, hreina orku í loftslagsmálunum. En ekki síður það, að það er mikið um fyrirspurnir um orkunýtingu líka til viðbótar og með þessum framkvæmdum getum við betur mætt þeirri þörf sem skapast í landinu. Þannig að þetta eru stór verkefni.“