Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fæstir ná endum saman og þurfa að neita sér um margt

13.09.2021 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
80% fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. 60% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og meira en einn af hverjum tíu þiggur mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Staða einstæðra fatlaðra foreldra er enn verri þar sem 90% eiga erfitt með að ná endum saman og hátt í helmingur þeirra getur ekki gefið börnum sínum næringarríkan mat. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á högum fatlaðs fólks sem Öryrkjabandalagið lét vinna og kynnt var í dag.

Meðal þess sem fram kemur er að rúmlega 40% þeirra höfðu þegið fjárhagsaðstoð frá vinum eða ættingjum síðasta árið. Um einn af hverjum fimm fékk sérstakan húsnæðisstuðning frá sveitarfélagi og álíka margir hafa verið í vanskilum á lánum eða leigu. Tæpur fjórðungur segist ekki hafa efni á staðgóðri máltíð annan hvorn dag.

Í rannsókninni kemur fram að 55% þeirra sem tóku þátt í henni eru í einhverskonar virkni; í starfi, endurhæfingu eða námi. Þar kemur fram mikill vilji meðal fatlaðra til að vera á vinnumarkaði en helsta fyrirstaðan er nefnd heilsufar og skortur á hlutastörfum. Þá óttast margir að það leiði til tekjuskerðingar.

Þegar staða foreldra í þessum hópi er skoðuð kemur í ljós að þröng fjárhagsstaða þeirra bitnar á börnum þeirra. Fjórir af hverjum tíu geta ekki keypt nauðsynlegan fatnað á börnin sín og þriðjungur getur ekki keypt eins næringarríkan mat og þau telja að börnin þurfi. Jafn hátt hlutfall getur ekki greitt fyrir skipulagðar tómstundir og sjötti hver gat ekki greitt fyrir skólamat. Þá á rúmlega einn af hverjum tíu ekki fyrir skólabókum eða námskostnaði.

Meðal annars sem var kannað í rannsókninni var félagsleg einangrun og fordómar. Rúmur fjórðungur sagðist upplifa mikla félagslega einangrun og meira en helmingur sagði að hún hefði aukist í faraldrinum. Meira en 70% sögðust upplifa fordóma í sinn garð vegna fötlunar sinnar.

Rannsóknin var unnin af Vörðu, sem er rannsóknarstofnun Vinnumarkaðarins og markmið hennar var að fá fram upplýsingar um stöðu fatlaðs fólks.