Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ástin og prófgráðurnar

Mynd: Oslo / Oslo

Ástin og prófgráðurnar

13.09.2021 - 11:33

Höfundar

Ásgeir H. Ingólfsson rýnir í þrjár kvikmyndir, sem sýndar voru á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi, og eiga það sameiginlegt að fjalla um misgeng ástarsambönd.

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar:

„Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu,“ söng Björgvin um árið. En þessar spurningar þvælast þó oft fyrir í samböndum, og fyrir einhverja dularfulla tilviljun sá ég þrjár myndir á stuttum tíma á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary sem allar höfðu verið sýndar í aðalkeppninni í Cannes og áttu það sameiginlegt að fjalla fyrst og fremst um ástarsambönd þar sem stétt og staða var gjörólík – en kannski fyrst og fremst menntunarstigið.

Byrjum í Frakklandi. Þar hefur Jacques Audiard í áratugi leikstýrt alvarlegum harðhausamyndum; um fanga í Spámanninum, Un Prophéte, eða innflytjendur í Dheepan. Þetta eru myndir blóðugra átaka og myndir um hinn stóra harm; magnaðar myndir oft. Með rækilegri einföldun mætti kannski kalla hann hinn franska Scorsese.

En hann er á allt öðrum slóðum í sinni nýjustu mynd, Les Olympiades, en titillinn vísar í Ólympíuturnana í 13. hverfi Parísarborgar. Ólympíuturnarnir eru svarthvít og djössuð ástarsaga, lauslega byggð á myndasögum Adrians Tomine, og það er eins og Audiard átti sig á að hann þarf sér yngra fólk til að semja þessa sögu með sér. Sjálfur er hann 69 ára, Tomine er kynslóð yngri og hann fær tvo kvenleikstjóra, sem eru tæpum 30 og 40 árum yngri, til að skrifa með sér handritið, þær Léu Mysius og Céline Sciamma, en sú síðarnefnda er ein skærasta stjarna franskra kvikmynda um þessar mundir.

Fjórir höfundar sumsé, og myndin er í raun hálfgerður ástarferhyrningur en það samband sem fær langmest pláss er þó samband Émilie og Camile. Camile er eini karlmaðurinn í þessum ástarferhyrningi, en þó með það kvenlegt nafn að Émilie bíður honum að skoða herbergi til leigu af því að hún heldur að hann sé kona. Émilie er taívönsk og Camile blökkumaður en þar liggja þó ekki átakalínur sambands þeirra, heldur í því að Camile er í doktorsnámi á meðan Émilie vinnur í símaveri. Þessi akademíski stéttamunur stíar þeim í sundur þótt aðdráttaraflið sé ótvírætt, þau eru á gjörólíkum stað í lífinu, hún sér hann sem hrokafullan menntamann og hann sér hana sem ómenntaða stelpuskjátu og seinna meir finna þau sér tímabundið maka sem á pappírnum ættu að henta þeim miklu betur.

En ástin spyr ekki um ferilsskrár eða prófgráður – og raunar kemur í ljós þegar fjölskyldusaga þeirra birtist manni í stuttum brotum að það er styttra á milli þeirra en maður heldur. Eldri systir Émilie er hámenntaður læknir og yngri systir Camile verðandi uppistandari. Klár, en ekki beint háskólatýpan. Þannig eru bæði á skjön í eigin fjölskyldu, og þar með í ákveðinni uppreisn gegn menntasnobbinu eða menntaleysinu sem þau alast upp í, en finna kannski á öfugsnúinn hátt ræturnar hvort í öðru. Skilja hvort annað öðrum betur, en á ská, sem tekur þau tímann sinn að átta sig á.

Valkvíði þess sem allt getur

En frá frönskum ástarferhyrningum yfir í norska ástarþríhyrninga, eins og þeir birtast í Verstu manneskju í heimi, Verdens verste menneske. Joachim Trier leikstýrir og skrifar handritið að venju með Eskil Vogt, sem er magnaður leikstjóri sjálfur, og fyrri myndir þeirra félaga hafa oftast borið með sér þyngri og dramatískari átök en þessi, rétt eins og Audiard eru þeir á átakaminni slóðum en þeir eru vanir.

Renate Reinsve var valin besta leikkonan á Cannes fyrir hlutverk Júlíu, sem er eldklár og  sjálfsörugg en með valkvíða á efsta stigi, fer úr læknisfræði í sálfræði og í ljósmyndun og millilendir svo loks í bókabúð, sem reynist ágætis millilending á meðan hún ákveður hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór.

Valkvíðinn er ekki alveg jafn mikill þegar kemur að samböndum, en er þó til staðar og hún sveiflast á milli Aksels og Eivindar, sem endurspegla kannski hvor sína hlið persónuleika hennar. Menntunarmunur hennar og myndasöguhöfundarins Aksels skýrist fyrst og fremst með aldursmuninum, það er rúmur áratugur á milli þeirra, hann er búinn að finna sína hillu og sanna sig þar, hún er enn að reyna að finna hilluna. En maður efast eiginlega ekki um að á endanum verði hún jafnoki Aksels í þessum efnum og rúmlega það. Eivind er hins vegar jafn stefnulaus og jafn áhugalaus um framtíðarskuldbindingar og hún en er vissulega engan veginn andlegur jafnoki hennar.

Titill myndarinnar er þó dálítið gallaður. Það er aukapersóna sem segir þessa setningu um sjálfa sig; versta manneskja í heimi; en þótt Júlía sé vissulega sjálfselsk á köflum þá á það sama við um aðrar persónur og þessi sjálfselska verður aldrei neitt skelfileg, hún kæmist ekki einu sinni á lista yfir verstu manneskjurnar í sínu póstnúmeri.

Nema að titillinn ætti að vera í fleirtölu og eiga við þetta sívælandi millistéttarpakk sem maður upplifir þau stundum sem. Það er nefnilega veikleiki myndarinnar, hún virkar á köflum dálítið hol að innan, eins og þeir Trier og Vogt hafi ekki alveg náð að gifta léttleikann sínum hefðbunda alvarleika.

Myndin er leikandi fyndin oft og kvikmyndagerðin tilraunakennd á eftirminnilegan hátt; í einu löngu atriði frýs tíminn, bókstaflega, og Júlía getur loksins notið sín án þess að það sé verið að reka á eftir henni, og í annarri senu sést eitt eftirmminnilegasta sveppatripp sem maður hefur séð í bíó. Það er bravör og áhugaverðir loftfimleikar í kvikmyndagerðinni sem vantar kannski aðeins í söguna sjálfa.

Myndin er kannski ekkert ógurlega löng en hún er kaflaskipt, mjög bókstaflega. Kaflarnir eru tólf, eða í raun fjórtán þegar formáli og eftirmáli bætast við, sem á ágætlega vel við aðalpersónu sem veður úr einu í annað.

En þótt manni leiðist aldrei þá er það á lokakaflanum sem myndin virklega nær flugi, í 11. og 12. kafla, þegar harmurinn brestur á og lífið verður ekki umflúið mikið lengur. Í þeirri lægð nær myndin sínum hæstu hæðum.  Og þá fær Aksel líka sínar bestu línur en það er Anders Danielsen Lie sem leikur Aksel. Hann er samverkamaður Triers til margra ára og hljómar jafnvel eins og hann tali í orðastað leikstjórans þegar hann rifjar upp hvernig hann „ólst upp þegar listin var eitthvað haldfast, gekk manna á milli sem hlutir, og við gátum búið innan um listina.“

Þessi fortíðarþrá er kannski líka ádeila á eigin mynd, minning um þá tíma þegar tveggja tíma sögum þurfti ekki að skipta upp í fjórtán auðmelta búta, áður en athyglisbresturinn margfaldaðist í okkur öllum og við skiptum meðallöngum bloggfærslum okkar upp í framhaldssögu fyrir Twitter. Þannig er kannski ekki tilviljun að brasilískur slagari, Waters of March, í flutningi Arts Garfunkel, sé hálfgert einkennislag myndarinnar, lag sem er ein löng upptalning, um heim kommunnar, þar sem stokkið er úr einu í annað.

Síberíuhraðlestin, námuverkamaðurinn og fornleifafræðingurinn

Að lokum skulum við bregða okkur yfir landamærin til Finnlands, en þó miklu lengra en það. Klefi nr. 6 er finnsk mynd eftir finnskan leikstjóra, Juho Kuosmanen, sem vann Un certain regard verðlaunin á Cannes ári á eftir Hrútum með Besta dag í lífi Olli Mäki. Nýja myndin er lauslega, mjög lauslega, byggð á samnefndri finnskri skáldsögu Rosu Liksom, sem Sigurður Karlsson þýddi fyrir tæpum áratug. En sagan gerist öll í Rússlandi. Mest í Síberíuhraðlestinni, vel að merkja. Í klefa númer sex.

Við byrjum þó í Moskvu, líkast til á nýfrjálsum og óreiðukenndum Jeltsín-árunum. Þar er Laura hin finnska við nám, á milli þess sem hún sefur hjá veraldarvönum leigusalanum, henni Irinu. Hún hefur náð ágætum tökum á rússneskunni og kann vel við þetta nýja líf sitt en finnst hún samt innst inni vera gestur í þessum heimi, og það á kannski ekki síður við um þennan flauelsmjúka og orðheppna menntamannaheim sem hún er skyndilega komin í. Hún þarf sífellt að leyna því að hún er bara stelpuvitleysingur úr finnskum smábæ. Eða það grunar mann, það kemur svo sem aldrei fram hvaðan hún er nákvæmlega en maður kannast við þessa tilfinningu, sérstaklega þegar maður er að venjast nýjum heimum, fóta sig í nýju lingói.

Þær Irina ætluðu að ferðast saman til Murmansk til að skoða þar fornar klettaristur, enda báðar upprennandi fornleifafræðingar, en á endanum kemst Irina ekki og Laura heldur því ein í þessa langferð yfir þvert og endilangt Rússland. En hún er þó ekki ein jafn lengi og hún hefði óskað. Í ljós kemur að klefafélagi hennar er hann Ljoha, krúnurakaður námuverkamaður, sem við fyrstu sýn er nánast eins og úr auglýsingu um agressívar ómenntaðar drykkfelldar rússneskar karlrembur og hagar sér líka þannig. Finnsk aukapersóna sem dúkkar upp um miðbik myndar spyr raunar: „Er til verksmiðja þar sem þeir framleiða þessa gaura?“

Hún er skiljanlega dauðhrædd við hann í fyrstu, hangir á göngunum eða á salerninu eða í matarvagninum, allt til að forðast klefafélagann. En það getur hún ekki gert endalaust. Þessi ferð tekur marga daga og hún hefur aðeins einn bedda til að sofa í.

Og Ljoha leynir vitaskuld á sér, annars væri þetta varla efni í heila bíómynd. Karlrembustælarnir eru varnarviðbrögð, og sama má segja um útlitið, en hægt og rólega þýðast þau hvort annað. Þau sameinast í að deila einsemdinni á þessu langa ferðalagi, hún fjarri öllu sem hún þekkir, hann mögulega loksins að kynnast umheiminum að ráði; maður er ekkert viss um að hann hafi hitt marga útlendinga áður, ef nokkra.

Þau sameinast þó kannski hvað helst í bernskum leikjum, í snjókastinu, í heimsókninni til frænkunnar sem er eins og babúska úr fornum kvæðum, þegar þau klifra um forna veðurðbarða kletta, þetta er í raun platónsk ást í grunninn, þetta er saga um fóstursystkini, um ósýnilegan streng vináttu og trausts sem tengir þau.

Einhverjir urðu til að kalla þetta rússnesku útgáfuna af Before Sunrise, en líklega væri réttara að kalla þetta andstæðu þeirrar frábæru myndar því Before Sunrise er ævintýrið sem sjaldnast rætist á ferðalögum. Klefi nr. 6 er hinn skítugi og kaotíski raunveruleiki sem við eigum raunverulega eftir að rekast á í lestum heimsins þar sem við finnum kannski ekki sálufélaga en rekumst á aðrar sálir, blöndumst þeim, eignumst hlutdeild í þeim. Hlutdeild í hinu framandi, heimum og hjörtum sem við hefðum annars aldrei skilið.

Það er kannski rétt að taka bara fram að þetta var besta myndin sem ég sá á Karlovy Vary af tuttugu-og-einni alls. Þessi endursköpun veraldar sem var, rétt eftir fall kommúnismans, þegar Rússland var stútfullt af popplögum sem komu þangað áratug á eftir Vestur-Evrópu, þegar Vestur- og Austur-Evrópubúar voru að venjast hverjir öðrum upp á nýtt, þegar svona ferðalög voru ferðalög inn í sálardjúpið en ekki bara eltingarleikur við betri nettengingu.

En þótt myndin gerist að mestu í lestarklefa eru allra bestu senurnar í snjó. Það kunna ekki margir leikstjórar vel að kvikmynda snjó og vetrarríki en Juho Kuosmanen gerir það meistaralega, með hjálp kvikmyndatökumannsins Jani-Petteri Passi. Og hér er sko alvöru vetur, hver einasta ökuferð á bílskrjóðum sem ættu varla að komast á milli húsa en virka samt einhvern veginn á ísilögðum síberískum vegum.

Og undir hljómar evrópoppið sem var kannski fyrsta límið sem virkaði til að líma saman gamla austrið og gamla vestrið eftir kalda stríðið, nánar tiltekið franska lagið „Voyage, voyage,“ þrítekinn óður um hið endalausa ferðalag út í óvissuna.

Tengdar fréttir

Pistlar

Lambið í barnaherberginu

Pistlar

Þegar allt fer úrskeiðis

Kvikmyndir

Hljóðlát ævintýri í Þögluvík

Kvikmyndir

Stéttamunur, kolefnisprump og kvikmyndahátíðir