Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Netárásir mögulega bara æfingar fyrir annað og verra

Mynd með færslu
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-ÍS, netöryggissveitarinnar hjá Póst- fjarskiptastofnun.  Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Netárásir þær sem gerðar voru á greiðslufyrirtækið Valitor í gærkvöld og SaltPay í byrjun þessa mánaðar gætu einungis verið æfingar fyrir umsvifameiri netárásir.

Umfangsmikil netárás var gerð á greiðslufyrirtækið Valitor í gærkvöld og olli hún um tíma talsverðum erfiðleikum með kortagreiðslur og úttektir. Svipuð netárás var gerð á fyrirtækið SaltPay þann 3. september. Ekki voru settar fram neinar kröfur frá hendi árásaraðila né urðu neinar afleiðingar af árásunum aðrar en truflanir á þjónustu.

Guðmundir Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggissveitar Fjarskiptastofu, sagði í samtali við fréttastofu að það gæti þó verið vísbending um að eitthvað annað og verra viðfangs sé í pípunum hjá árásaraðilunum.

„Ég met það sem svo að það ættu allir að vera viðbúnir því að það gætu komið sambærilegar árásir í framhaldi. Að mörgu leyti eru þessar árásir sem eru að eiga sér stað núna, þær virka svona á mann eins og einhver sé hreinlega bara að æfa sig. Það eru engin hótunarbréf sem hafa borist og það er engin augljós aðili á bakvið þetta.“

Guðmundur Arnar segir enga leið að vita hver eða hverjir standa að baki árásunum. Þess vegna sé mikilvægt að nýta tímann og undirbúa sig fyrir mögulegt framhald á því sem gengið hefur á undanfarna daga. Hann segir skynsemi í því að búa sig undir þann möguleika.

„Meðan það er staðan, að við vitum ekki hver er að þessu, þá er bara gífurlega mikilvægt núna að við nýtum þessa reynslu sem er að myndast við þessar árásir núna, hjá mismunandi félögum, í að skiptast á upplýsingum og undirbúa sig mögulega fyrir stærri árás, eða hnitmiðaðri árás.“