Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íhuga að auðvelda afkomendum þræla að skipta um nafn

12.09.2021 - 06:51
Ryðguð keðja.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Borgaryfirvöld í Utrecht í Hollandi íhuga nú hvort rétt sé að þau greiði fyrir þá afkomendur þræla sem vilja breyta eftirnafni sínu. Á nýlendutímanum voru margir þrælar látnir taka upp eftirnafn eigenda sinna, plantekranna, eða afbrigði af hollenskum eftirnöfnum.

Hollendingar sem vilja breyta eftirnafni sínu verða yfirleitt að greiða fyrir það 835 evrur, jafnvirði um 127 þúsund króna. Jafnframt verða þeir að þreyta sálfræðipróf því til sönnunar að eftirnafnið valdi þeim ama. Nú íhuga yfirvöld í Utrecht, fjórðu stærstu borg Hollands, hvort rétt sé að þau greiði þessa upphæð til þess að létta á skriffinnskunni, eftir að meirihluti borgarfulltrúa samþykkti að auðvelda afkomendum þræla að breyta nöfnum sínum.

Talsmaður borgarstjórnar Utrecht sló þann varnagla í samtali við Guardian að enn hafi ekkert verið ákveðið í málinu. Verið sé að kanna alla möguleika. Líklega verður greint nánar frá því hvernig yfirvöld hyggjast taka á málinu í desember, þegar þau hafa betri yfirsýn yfir hversu margir vilja breyta nafni sínu. Svipaðar samræður eru í gangi í Amsterdam, Rotterdam og Haag, að sögn Guardian.

Hollendingar voru á sínum tíma nokkuð stórtækir í landvinningum og þrælasölu. Talið er að frá sextándu og fram á nítjándu öld hafi hollenskir þrælasalar flutt allt að 600 þúsund þræla frá Afríku til Ameríku, eða um sex prósent allra þræla sem siglt var með þá leið. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV