Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekkert goshlé heldur stífluð gosrás í gíginn

Mynd: Matthias Vogt / Volcano Heli
Eldgosið við Fagradalsfjall sást vel frá höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld, þegar tók að gjósa upp úr gígnum á ný eftir nokkurra daga hlé. Gosórói tók sig upp að nýju í gærmorgun og kvikan tók að flæða undan gígnum og braut sér leið upp í gegnum hraunið. Þar var hins vegar ekki fyrr en í gærkvöld sem gígurinn sjálfur tók við sér á ný.

Í Facebook-færslu Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands segir að eftir rannsóknarferð að gosstöðvunum í gær sé ljóst að gosið stöðvaðist ekki í þessa nærri níu daga þar sem óróinn lá niðri. Hins vegar hafi gosrásin stíflast upp í gíginn sem varnaði því að kvika flæddi inn í hann.

„Þetta kom einnig í veg fyrir myndun og streymi stóru gasbólanna og þess vegna var óróinn svipur hjá sjón. En veikir óróapúlsar, stöðugt gasútstreymi frá gígnum, glóandi kvika í himnaljóra ofan við innri rásir hraunsins og nýjar sinur við hraunjaðra í Geldingadölum sýna að kvika var að streyma upp um gosrásina til yfirborðs í þessari pásu yfirborðsvirkninar,“ segir í færslunni.

Hér að neðan má sjá myndbönd frá ferð hópsins í gær.