Wolka verður opnunarmynd íslenskra bíódaga á RIFF hátíð

Wolka verður opnunarmynd íslenskra bíódaga á RIFF hátíð

11.09.2021 - 17:36

Höfundar

Síðasta mynd  kvikmyndaleikstjórans Árna Ólafs Ásgeirssonar sem lést fyrr á árinu, verður opnunarmynd Icelandic Panorama á  alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RiFF. Kvikmyndin Wolka er fyrsta leikna íslenska myndin sem gefur nána innsýn í pólskt samfélag á Íslandi.

Wolka er íslenskt-pólskt samstarfsverkefni. Kvikmyndin er á pólsku og eru flestir leikarar pólskir. Margir Íslendingar koma að gerð myndarinnar; tónlist, leikmynd og framleiðsla eru í höndum Íslendinga. Film Produkcja og Saga film framleiða myndina. Vestmannaeyjar eru aðalsögusvið myndarinnar..
Allar kvikmyndir Árna Ólafs verða sýndar á hátíðinni Brim, Blóðbönd og Lói þú flýgur aldrei einn auk Wolku.

Hrönn  Marinósdóttir stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar  RIFF
segir að með því vilji hátíðin heiðra minningu Árna Ólafs 

RiFF-kvikmyndahátíðin fer nú fram í átjánda sinn. Frá því hátíðin var fyrst haldin hafa 4800 myndir frá 40 löndum verið sýndar á hátíðinni. Lögð er áhersla á framsækna kvikmyndagerð og unga kvikmyndagerðarmenn. Um tuttugu þúsund gestir mæta að jafnaði á hátíðina árlega. Bílabíó, sundbíó og hellabíó verður á meðal viðburða þessu sinni. Hellabíóið verður í Raufarhólshelli.

 Hrönn segir markmiðið að fá fleiri til að sækja kvikmyndahús.
„Það sem í rauninni vakir fyrir okkur með þessum skrýtnu viðburðum er að fá fleira fólk til að sækja bíó en vanalega fer í bíó. Þetta verður svona upplifun, við erum að setja myndirnar í annan búning þannig að það verði skemmtileg upplifun að sjá mynd og kannski upplifa eitthvað annað í leiðinni."

Bíóbíllinn mun einnig ferðast um landið í tengslum við alþjóðlegu kvikmyndahátíðina og dagskrá verður fyrir leikskóla- og grunnskólabörn tengd RiFF hátíðinni. Hátíðin verður frá 30.september til 10. október.