Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja hraðpróf fyrir covid á fleiri stöðum

11.09.2021 - 09:40
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Listamenn halda flestir að sér höndum og fæstir hafa efnt til viðburða með fimm hundruð gestum í hólfi. Í gær hófust hraðprófanir fyrir fólk sem hyggst sækja viðburði en aðsóknin var dræm. „Við myndum alveg vilja fá einkaaðilana með, sem eru þegar að gera þessi próf, til þess að þetta sé á fleiri stöðum og gestum finnist þetta fýsilegur kostur,“ segir Hrefna framkvæmdastjóri Tix.is.

Hraðpróf eru í boði til klukkan átta á kvöldin virka daga og til þrjú um helgar fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hraðprófin eru fyrir ferðalanga, fólk sem á að viðhafa smitgát og í dag bættust við próf fyrir fólk sem hyggst sækja viðburði fyrir fleiri en tvö hundruð manns. Prófin eru á Suðurlandsbraut í Reykjavík en fyrst verður fólk að skrá sig á Heilsuveru eða á hradprof.covid.is. Þeir sem ekki eru smitaðir fá vottorð þess efnis sem gildir í tvo sólarhringa. 

„Þetta breytir auðvitað mjög miklu og opnar fleiri möguleika. Við hefðum auðvitað viljað sjá þessa tölu hærri en þetta er gott skref,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is.

Um sextíu manns höfðu farið í hraðpróf vegna viðburða klukkan fimm í gærdag enda lítið ef nokkuð um skipulagða viðburði nú um helgina fyrir fleiri en tvö hundruð manns í sóttvarnahólfi.

„Það eru þessir stóru Eldborgarviðburðir einna helst og stóru ráðstefnurnar sem myndu koma til með að nýta sér þetta. En eins og staðan er núna þá eru kannski allir bara að bíða eftir því að sjá hvað kemur upp úr minnisblaðinu og hvort það verði ekki einhverjar tilslakanir. Við erum að vona það,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Eftir viku heldur hljómsveitin Nýdönsk tvenna tónleika í Hörpu.

„Það er gert ráð fyrir fimm hundruð manns í hólfi. Svo kemur það í ljós og skýrist í næstu viku hvort þeir gestir verði að framvísa neikvæðu prófi,“ segir Svanhildur.

En er Sinfóníuhljómsveitin að skipuleggja fimm hundruð manna tónleika?

„Ekki eins og staðan er núna. Þau eru aðeins að bíða og hugsa sinn gang,“ segir Svanhildur.

Fyrirhugaðir tónleikar í næstu viku gætu verið í nokkrum tvö hundruð manna hólfum þar sem hvert hólf hefur sína salernisaðstöðu. Þetta er sú leið sem leikhúsin ætla að halda áfram að feta, í bili að minnsta kosti. En hvers vegna er ekki meiri áhugi fyrir fimm hundruð manna hólfum og hraðprófum?

„Maður verður eiginlega að segja það eins og er að það voru talsverð vonbrigði fyrir okkur sem erum að reka menningarhúsin þegar ákveðið var að hafa prófin aðeins á einum stað, uppi á Suðurlandsbraut,“ segir Svanhildur. 

„Við myndum alveg vilja fá einkaaðilana með sem eru þegar að gera þessi próf til þess að þetta sé á fleiri stöðum og gestum finnist þetta fýsilegur kostur,“ segir Hrefna.

Ingibjörg S. Steindórsdóttir er verkefnastjóri með sýnatökum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins:

„Það er bara út af því að við höfum aðstöðuna hér og við getum tekið fjöldann allan í einu. Ef við ætluðum að hafa þetta inni á heilsugæslustöðvunum þá værum við að trufla aðra starfsemi,“ segir Ingibjörg.