
Leiðtogi Skínandi stígs látinn
Samtökin Skínandi stígur báru ábyrgð á mannskæðum hryðjuverkum á árunum 1980 til 2000 í þeim tilgangi að steypa stjórnvöldum Perú af stóli. Markmið Guzman með hermdarverkum Skínandi stígs var að stofna marxískt ríki í Perú að fyrirmynd átrúnaðargoðs síns, kínverska kommúnistaleiðtogans Maó Zedong.
Hann leit ekki aðeins til Maó formanns eftir innblæstri heldur einnig til grimmdarverka kambódískra einræðisherrans Pol Pot. Hann fyrirskipaði til að mynda fjöldamorð í þorpi í Andes-fjöllunum þegar þorpsbúar neituðu að ganga til liðs við hann.
Guzman, sem var áður prófessor í heimspeki, afplánaði lífstíðardóm í hámarksöryggisfangelsi í flotastöðinni Callao skammt frá Lima. Eiginkona Guzmans, Elena Iparragurre, afplánar sjálf lífstíðardóm fyrir hryðjuverk í öðru fangelsi í Lima.
Alls er talið að átök þau sem Skínandi stígur stóð fyrir hafi kostað 70.000 mannslíf. Sumir voru líflátnir, aðrir hurfu sporlaust og hafa aldrei komið í leitirnar.
Yfirvöld í Perú náðu aldrei að ganga fyllilega milli bols og höfuðs á hinum Skínandi stíg en samtökin samanstanda af aðeins nokkur hundruð meðlimum nú til dags.