Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Börn á BUGL keppast um hvert geti tapað mestri þyngd

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Börn sem leggjast inn á geðdeild vegna annars vanda en átröskunar fara stundum að sýna einkenni átröskunar til þess að fá meiri athygli frá starfsfólki. Sérfræðingur segir að þessi smitáhrif fylgi því að vera með blandaða barna- og unglingageðdeild. Þá verður stundum samkeppni milli þeirra barna sem hve veikust eru af átröskun um hvert þeirra geti tapað mestri þyngd.

Dagbjörg B. Sigurðardóttir, sérfræðilæknir í átröskunarteymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, segir að sum börn séu orðin mjög veik af átröskun þegar þau leggjast inn á deildina.

„Þarna erum við kannski að tala um þau börn sem hafa lést mjög hratt og eru komin í mikla undirþyngd. Hugur þeirra er auðvitað mjög upptekinn af því að léttast meira og nærast ekki. Þetta er gríðarlegt álag á fjölskyldur þessara barna því þau þurfa mikla sinningu. Þau þurfa nánast manninn með sér í öllum athöfnum daglegs lífs því sjúkdómurinn er þess eðlis. Hann tekur svolítið yfir,“ segir Dagbjörg.

„Það eru veikustu krakkarnir og þeir sem þurfa að leggjast inn, sem ekki ná upp þyngdinni eða nærast eðlilega á göngudeild. Okkur vantar kannski betra úrræði þar,“ segir Dagbjörg. Brýnt sé að fá fleira faglært starfsfólk.

Pikka upp átröskunartakta

„Við erum með eina blandaða legudeild þar sem við erum að fá alls konar vandamál inn. Við erum með 2-3 einstaklinga innlagða hverju sinni með alvarlega átröskun. Það eru smitáhrif milli einstaklinga sem við sjáum oft. Maður sér það stundum í þessum sjúkdómi að einstaklingarnir fara í samkeppni hver við annan. Þá gengur það út á það að léttast meira eða átröskunarhugsanirnar taka svolítið yfir og þú ert í samkeppni við hinn aðilann að plata starfsfólkið og léttast meira en hinn. Við sjáum líka dæmi um það að einstaklingar sem liggja inni með annan vanda fara að pikka upp átröskunartakta til að fá sinningu. Þannig að það er alls konar sem spilar þar inn í,“ segir Dagbjörg.