Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vinstrimönnum enn spáð sigri í Noregi

Mynd: EPA-EFE / NTB
Norðmenn ganga til Stórþingskosninga á mánudag og skoðanakannanir benda til þess að níu flokkar fái menn kjörna. Allt virðist benda til þess að Erna Solberg, sem verið hefur forsætisráðherra síðastliðin átta ár, þurfi að láta af embætti. Bæði flokkur hennar, Hægriflokkurinn, Høyre, og Framfaraflokkurinn, sem lengst af var í stjórn með Høyre, missa umtalsvert fylgi ef marka má niðurstöður kannana

Mið-og vinstriflokkum spáð meirihluta

Meðaltal nýrra kannana bendir til þess mið- og vinstriflokkar fái 100 þingsæti, en hægri flokkar fái 69. Verði úrslitin eitthvað í líkingu við þetta reynir Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, að mynda stjórn. Stjórnarmyndun verður samt að öllum líkindum langt í frá auðveld.

Róttækari í umhverfis- og orkumálum

Flokkar til vinstri við Verkamannaflokkinn eru mun róttækari í umhverfis- og orkumálum og vilja að Norðmenn hætti leit að nýrri olíu og að olíuvinnslu verði hætt sem fyrst. Í þeim efnum er hins vegar lítill munur á stefnu Verkamannaflokksins og Høyre. Samsteypustjórn þeirra flokka er á hinn bóginn talin ,,pólitískur ómöguleiki." 

Þrír flokkar við fjögurra prósenta markið

Það vekur athygli í nýjustu könnunum að litlir flokkar eins og Kristilegi þjóðarflokkurinn, Vinstri, sem þrátt fyrir nafnið er til hægri, og Græningjar fá allir meira en fjögur prósent atkvæða. Fyrri kannanir höfðu spáð því að sú yrði ekki raunin. Í Noregi verða flokkar að fá að minnsta kosti fjögurra prósenta fylgi á landsvísu til að fá úthlutað jöfnunarsætum. 

Óvenju margir Norðmenn hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar, aðrir bíða með að gera upp hug sinn. Leiðtogaumræður verða í sjónvarpi í kvöld.