Vill frekari svör um athugun á synjun örorkulífeyris

Mynd með færslu
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV
Umboðsmaður alþingis hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu um yfirferð ráðuneytisins á framkvæmd Tryggingastofnunar þegar kemur að synjun á örorkulífeyri til ungs fólks.

Umboðsmaður sendi ráðuneytinu fyrirspurn um miðjan júní um það hvort breytingar hefðu orðið á framkvæmd Tryggingastofnunar á þann veg að umsóknum ungs fólks um örorkulífeyri væri í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Umboðsmanni hafði þá borist ábendingar um að Tryggingastofnun hefði synjað umsóknum með þeim rökstuðningi að endurhæfing væri ekki fullreynd, án þess að hafa lagt mat á raunverulega möguleika umsækjenda á endurhæfingu. Jafnvel hafði legið fyrir álit lækna um að frekari endurhæfingu myndi ekki skila árangri.

Ráðuneytið greindi þá frá nokkrum kvörtunum vegna afgreiðslu örorkumats og í svarbréfi sagði að ætlunin væri að fara yfir framkvæmdina.

Umboðsmaður vill nú skýrari upplýsingar um það hvað felst í yfirferðinni og hvenær henni lýkur. Liggi einhverjar niðurstöður fyrir nú þegar óskar hann eftir því að verða upplýstur um þær. 
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV