Hver íbúi greiðir 50 þúsund á ári með dvalarheimilinu

10.09.2021 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Ný skýrsla sýnir að hver íbúi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hefur greitt sem svarar um 50 þúsund krónum á ári með rekstri hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts á Þórshöfn. Heimilið er í eigu sveitarfélagsins og hefur rekstrarsamning við Sjúkratryggingar Íslands.

Skýrslan staðfesti grun sveitarstjórnar

Skýrslan var tekin saman, að ósk sveitarstjórnar Langanesbyggðar, vegna mikils halla á rekstri heimilisins síðustu þrjú ár. Við afgreiðslu uppgjörs fyrir árið 2020 voru afskrifaðar rúmlega 46 milljónir sem aðalsjóður Langanesbyggðar hefur lagt til rekstursins á undangengnum árum. Framlag íbúa í þeim tveimur sveitarfélögum sem að rekstrinum standa er því um 50.000 krónur á mann en í þessum tveimur sveitarfélögum búa um 600 manns. Jónas Egilsson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, segir að skýrslan staðfesti grun sveitarstjórnar um stöðuna. 

Skýrslan var birt á heimasíðu Langanesbyggðar. 

Vilja ekki fara sömu leið og Akureyrarbær

„Við viljum halda þessum  rekstri áfram hérna og erum tilbúnir að skoða leiðir með ríkisvaldinu um það hvernig við gerum það. En það er alveg ljóst að 50 þúsund krónur á íbúa á ári er meira en eðlilegt getur talist að við séum að borga með þessu,” segir Jónas. 

Sjá einnig: Heilsuvernd tekur við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar

Kemur til greina að fara sömu leið og Akureyrarbær og hreinlega skila rekstrinum?

„Við höfum rætt það en það yrði algjört neyðarbrauð að gera það. En við viljum það ekki vegna þess að þessi stofnun er mikilvæg fyrir þetta samfélag hérna. Við erum ekki að sjá neitt rekstrarhagræði í því að segja upp fólki. Eina sem gæti verið sparnaður, innan gæsalappa er að sameina reksturinn, einhverjum öðrum. T.d á Húsavík eða Akureyri en þá erum við að tala um 2-3 tíma akstur aðra leiðina fyrir fólk hérna til að heimsækja sína ættingja og vini og ég held að það myndi rýra lífsgæði allra hérna.”