
Fyrrum leyniþjónustuforingi handtekinn á Spáni
Að sögn spænsku ríkislögreglunnar fannst Carvajal í íbúð í Madríd. Þar hafðist hann við, algjörlega innilokaður og leit ekki einu sinni út um gluggann, hefur AFP fréttastofan eftir lögreglu. Hans var alltaf gætt af fólki sem hann treysti vel.
Detenido esta noche en #Madrid el "Pollo Carvajal", prófugo de la justicia y buscado para su extradicción a #EEUU. Vivía totalmente enclaustrado, sin salir al exterior ni asomarse a la ventana, y siempre protegido por personas de confianza.#SomosTuPolicia pic.twitter.com/U7D7iKkQDg
— Policía Nacional (@policia) September 9, 2021
Carvajal var yfir leyniþjónustunni í stjórnartíð Hugo Chavez. Hans hefur verið leitað frá því spænskur dómstóll gaf út handtökuskipun í nóvember árið 2019. Þá fóru lögreglumenn að heimili hans í Madríd en gripu í tómt. Lögmenn hans neituðu að vita nokkuð um ferðir hans. Carvajal hélt lengi til í heimalandinu, en varð að flýja eftir að hann lýsti yfir stuðningi við Juan Guaido, helsta andstæðing forsetans Nicolas Maduro. Carvajal sigldi til Dóminíkanska lýðveldisins, þaðan sem hann hélt til Spánar.
Carvajal er eftirlýstur í Bandaríkjunum vegna gruns um að hann hafi aðstoðað skæruliðahreyfinguna FARC í nágrannaríkinu Kólumbíu við eiturlyfjaviðskipti. Í ákæruskjali sme lagt var fram í New York ríki Bandaríkjanna árið 2011 er Carvajal sakaður um að hafa skipulagt flutning rúmlega 5,6 tonna af kókaíni frá Venesúela til Mexíkó fimm árum áður. Kókaínið átti að vera selt í Bandaríkjunum. Auk þess er honum gert að sök að hafa fengið þungvopnaðar öryggissveitir til að fylgja sendingunum eftir. Sjálfur neitar Carvajal sök og segir ákærurnar af pólitísku bergi brotnar.