Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Frambjóðandi á lista tveggja flokka

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett - RÚV
Frambjóðandi á nýkynntum lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi var einnig á lista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem kynntur var á dögunum. Maðurinn heitir Ágúst Heiðar Ólafsson og býr á Akranesi.

Í samtali við Austurfrétt, sem greindi fyrst frá, segir Ágúst Heiðar þetta hafa verið mistök. Hann sé í Flokki fólksins og ætli sér að vera í framboði þar en ekki hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn býður nú fram til þings í fyrsta skipti. Formenn flokksins eru tveir, Guðmundur Franklín Jónsson, hagfræðingur og fyrrum forsetaframbjóðandi, og Glúmur Baldvinsson, stjórnmála- og hagfræðingur.

Á hádegi á morgun rennur út frestur til að skila inn framboðslistum. Guðmundur Franklín segir í samtali við fréttastofu að málið verði leyst þannig að sonur hans, Árni Franklín, taki sæti Ágústs Heiðars, það fjórtánda.

Að örðu leyti segir Guðmdundur Franklín að öll framboðsmál séu í lagi og síðustu listum verði skilað á morgun.

Segir Flokk fólksins vinna gegn flokknum

Guðmundur Franklín segir að hann furði sig á vinnubrögðum Flokks fólksins og formannsins, Ingu Sæland, sem hann segir vinna markvisst gegn flokk hans til dæmis með því að gera stefnuskrá flokksina að sinni.

„Mér leiðast svona vinnubrögð,“ segir hann. „Hún hafði boðið mér 1. sæti á lista [Flokks fólksins] í Suðurkjördæmi í fyrra, en síðan sveik hún það bara,“ segir Guðmundur Franklín. Hann segist þó ekki vilja fullyrða að Flokkur fólksins hafi vitað að frambjóðandinn væri á lista hjá sér. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV