Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bara þrjár vikur eftir til að nota Ferðagjöfina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðeins þrjár vikur eru eftir til þess að nýta ferðagjöfina. Minna en helmingur Íslendinga hefur sótt gjöfina eða 140 þúsund manns og átta hundruðu milljónir króna eru því eftir í pottinum. Þau sem ætla ekki að nýta gjöfina geta ávísað henni til annarra.

Síðasti dagur til að nýta ferðagjöfina er 30. september. Stjórnvöld gera ráð fyrir einum og hálfum milljarði í ferðagjöfina og nú er aðeins búið að sækja sem nemur tæpum 700 milljónum króna. Ekki er búið að nota nema 453 milljónir af þessum 700.

Sé þessum 800 milljónum skipt niður á þessa tuttuguogtvo daga sem eftir eru þarf að nýta 36 milljónir á dag. Reyndar er hægt að framlengja, ef svo má segja, því sum fyrirtæki bjóða fólki að innleysa ferðagjöfina og fá innleggsnótu í staðinn. 

Hægt að ávísa ferðagjöfinni til annarra

Ætli fólk ekki að nota gjöfina er um að gera að leyfa öðrum að njóta. Það er gert í ferðagjafarappinu með því að smella á „gefa áfram“ og slá inn kennitölu þiggjandans. 

Bensínstöðvar vinsælastar

N1 hefur fengið stærstan hluta ferðagjafanna, 34 milljónir króna, samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu. Næst á eftir eru Sky Lagoon, Olís, KFC, Icelandair, Flyover Iceland, Dominos, Jarðböðin við Mývatn, Vök baths á Fljótsdalshéraði og miðasalan Tix.

Í fyrri ferðagjöfinni sem gilti til maíloka var Flyover Iceland, sýndarveruleikabíó út á Granda, vinsælast. N1 og Olís voru í öðru og þriðja sæti, þá KFC, og svo hótelkeðjurnar Íslandshótel og Icelandair Hotels. Bláa lónið var í sjöunda sæti, þá Dominos, Flugfélag Íslands og Hlöllabátar.