Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Land rís áfram við Öskju

08.09.2021 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Land heldur áfram að rísa við Öskju, en þensla hófst þar í byrjun ágúst og landris mældist fimm sentímetrar í síðasta mánuði. Mælingar sýna að það heldur áfram. 

Nýjustu mælingar sérfræðinga Veðurstofu Íslands sýna að landið hefur nú risið í um sex sentímetra, að sögn Bryndísar Ýrar Gísladóttur, náttúruvásérfræðings á Veðurstofu Íslands. „Og eins og staðan er virðist þetta vera áframhaldandi,“ segir Bryndís.

Hún segir að þetta þýði að eitthvers konar innflæði sé að halda áfram á svæðinu.  „Líklegast kvikuinnflæði sem er að valda þessu risi. Mögulega svipað og það sem var í gangi á Reykjanesinu áður en byrjaði að gjósa þar þegar það var þarna ris eins og kringum Þorbjörn og þar,“ segir Bryndís.

Má þá leiða að því einhverjum líkum að það sé að fara að gjósa á þessum slóðum? „Það er góð spurning, þetta verður bara að koma í ljós. Þetta gæti haldið svona áfram í einhvern tíma í viðbót og síðan stoppað og svo gæti líka mögulega endað með gosi seinna meir. En við verðum bara að bíða og sjá.“