Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Innviðir og heilbrigðisþjónusta aðalmálaflokkar í NV

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sundabraut, vegaumbætur, raforkumál og heilbrigðisþjónusta eru meðal helstu málaflokka í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Farið var yfir helstu kosningamál á kjördæmafundi oddvita í Norðvesturkjördæmi á RÁS 2 í gær. Heilbrigðismál og aðgengi að heilbrigðisþjónustu voru þar ofarlega á baugi. 

Hér má hlusta á fundinn.

Páll Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi bendir á niðurstöðu íbúakönnunar sem var gerð í landshlutanum fyrir ári.

„Þar þykir mörgum íbúum að þjónustan, hvað varðar heilbrigðismálin, að henni hafi hrakað á síðustu árum. Það er auðvitað aðgengi að læknisþjónustu sem skiptir miklu máli og að biðtími sé stuttur og þarna þarf að bæta úr og það er gríðarlega mikilvægt að það gangi eftir.“

Þá sé ekki hægt að líta framhjá öldrunarmálum og stöðu hjúkrunarheimila. Páll segir nauðsynlegt að ríkið komi þar sterkar inn með fjárútlátum. Það sé málefni sem kjósendur á Vesturlandi líti til.

Innviðir stórt hagsmunamál í kjördæminu

Í Norðvesturkjördæmi bíða samgöngubætur víða. Malarvegir eru á stórum köflum um Skógarströnd, klofning í Dölum og um Vatnsnes. Eins er kallað eftir jarðgöngum, til dæmis undir fjallvegina Mikladal og Hálfdán og um Súðavíkurhlíð. Þessi vegarkaflar liggja þá oft á milli þéttbýliskjarna.

Sigríður Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

„Við létum til dæmis vinna viðhorfskönnum á Vestfjörðum gagnvart ákveðnum vegarköflum og þá kemur í ljós að stór hluti fólks getur ekki hugsað sér að vinna á milli byggðarlaga sem gerir atvinnusvæðaskiptinguna dálítið skrítna.“ 

Hún leggur þá áherslu á að vetrarþjónusta á þessum köflum sé góð þar til að úrbótum kemur. 

Páll segir að tveir plús einn vegur frá Hvalfjarðagöngum að Borgarnesi sé áherslumál Vestlendinga og eins Sundabraut. 

„Það auðvitað styttir vegalengdina á milli höfuðborgarinnar og Vesturlands og það er oft talað um það ef það er innan við 45 mínútur á milli heimilis og vinnustaðar þá er það mjög gerlegt.“  

Raforkuframleiðsla og afhendingaröryggi eru ekki síður stór málaflokkur í Norðvesturkjördæmi, sér í lagi fyrir Vestfirðinga. 

„Þetta eru ekki andstæður heldur skiptir bæði máli. Afhendingargeta raforku og það að það sé umframgeta í raforku skiptir gríðarlega miklu máli upp á að það sé hægt að grípa tækifærin og efla atvinnulíf. Afhendingaröryggi skiptir líka máli,“ segir Sigríður.