Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segja bann við kaupum á kynlífi mannréttindabrot

epa08800368 Prostitution windows in the Red Light District in Amsterdam, The Netherlands, 05 November 2020. Due to the latest coronavirus measures all prostitution windows in the Netherlands must in any case remain closed for the next two weeks.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA
Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðar á næstunni hvort frönsk lög, sem banna kynlífsvinnu, standist mannréttindasáttmála Evrópu. Úrskurðurinn gæti haft áhrif á Íslandi og víðar.

Á þriðja hundrað starfsmanna í kynlífsiðnaði og nítján frönsk samtök komu málinu til Mannréttindadómstólsins. Þau freista þess að fá bann við kynlífsvinnu, sem sett var í Frakklandi árið 2016, fellt úr gildi.

Lögin eru að sænskri fyrirmynd, þar sem kaup á vændi er gert refsivert en ekki salan. Sams konar lög voru sett á Íslandi árið 2009 og hafa einnig verið tekin upp í Noregi, Kanda, Írlandi og Ísrael.

Lögin eiga að senda þau skilaboð að vændi sé birtingarmynd kynferðisofbeldis, eins og segir í greinargerð með íslensku lögunum. Það sé oftast til komið vegna neyðar og að dæmi væru um það að konur hér á landi hefðu verið neyddar til vændis. „Bann við kaupum á vændi sendir jafnframt þau skilaboð í samfélagið að það sé litið alvarlegum augum að kaupa sér aðgang að líkama fólks og að ekki sé ásættanlegt á Íslandi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi.“

Telja brotið gegn þremur ákvæðum mannréttindasáttmálans 

Málið horfir hins vegar öðruvísi við kærendunum frönsku. Þeir halda því fram að lögin brjóti gegn þremur ákvæðum mannréttindasáttmálans: réttinum til lífs, banni við ómanneskjulegri og niðrandi meðferð, og réttinum til einkalífs. Þá er því haldið fram í kærunni að lögin stefni lífi kvenna í hættu með því að ýta starfseminni út á jaðar samfélagsins. 

Mannréttindadómstóllinn samþykkti í apríl að taka málið fyrir, en einhvern tíma gæti tekið þar til úrskurður liggur fyrir.

Ríkisstjórn Svíþjóðar aðstoðar franska ríkið í málsvörn sinni. Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir Morgan Johansson, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, að það sé óhemju mikilvægt fyrir Svíþjóð að verja lagasetninguna.

„Við vorum jú fyrst í heimi til að innleiða þessa tegund laga og við höfum litið á þetta sem skilvirka leið til að koma í veg fyrir mansal og misnotkun.“

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV