Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nítján fjölmiðlar fá rekstrarstuðning frá ríkinu

07.09.2021 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Nítján einkareknir fjölmiðlar fá rekstrarstuðning frá ríkinu í ár. Alls bárust 23 umsóknir til úthlutunarnefndar en samtals var sótt um stuðning að fjárhæð 880 milljón króna. Tveimur umsóknum var synjað og tveimur umsóknum var vísað frá þar sem þær bárust eftir lögbundinn frest.

Til úthlutnar voru tæplega 389 milljónir króna en Árni Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson, endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands voru í úthlutunarnefndinni sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði. Fjölmiðlanefnd sá um umsýslu umsókna og veitti nefndinni sérfræðiaðstoð vegna þeirra.

Árvakur hf., sem gefur út Morgunblaðið og rekur mbl.is og útvarpsstöðina K100, Sýn ehf., sem rekur meðal annars Stöð 2, Bylgjuna og vísi.is, og Torg ehf., sem gefur út Fréttablaðið og rekur frettabladid.is og Hringbraut, fá öll rúmlega 81 milljón króna styrk. Kjarninn fær 14,4 milljónir, Myllusetur ehf, sem gefur út Viðskiptablaðið, fær tæplega 27 milljónir, Útgáfufélagið Stundin fær 25,3 milljónir og N4 ehf. fær 19,4 milljónir.

Þetta er nokkur breyting frá því í fyrra þegar Árvakur hf. fékk tæpar 100 milljónir og Sýn hf. rúmlega 91 milljón. Þá fékk Torg ehf. hins vegar 64,7 milljónir.

Rekstrarstuðningur til einkarekinna fjölmiðla árið 2021

Árvakur hf. 81.450.544 kr.
Bændasamtök Íslands 12.417.595 kr.
Elísa Guðrún ehf. 3.294.881 kr.
Fótbolti ehf. 4.900.573 kr.
Fröken ehf. 5.188.036 kr.
Kjarninn miðlar ehf. 14.405.244 kr.
Leturstofan ehf. 1.461.257 kr.
MD Reykjavík ehf. 5.756.188 kr.
Myllusetur ehf. 26.834.860 kr.
N4 ehf. 19.401.735 kr.
Skessuhorn ehf. 9.311.410 kr.
Steinprent ehf. 1.925.017 kr.
Sýn hf. 81.450.544 kr.
Torg ehf. 81.450.544 kr.
Tunnan prentþjónusta ehf. 1.788.100 kr.
Útgáfufélag Austurlands ehf. 3.369.770 kr.
Útgáfufélagið ehf. 2.456.080 kr.
Útgáfufélagið Stundin ehf. 25.303.378 kr.
Víkurfréttir ehf. 6.681.581 kr.