Leigubílstjórar á Akureyri ósáttir — gert að rífa BSO

07.09.2021 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Leigubílstjórar á Akureyri eru allt annað en sáttir við að þurfa að yfirgefa núverandi húsnæði á Akureyri. Hús bifreiðastöðvar Oddeyrar á Akureyri, sem var reist fyrir rúmum 60 árum þarf að víkja fyrir 1. apríl á næsta ári vegna breytinga á deiliskipulagi.

Eitt af kennileitum Akureyrar

Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO, var stofnuð 1953 og hefur allar götur síðan starfað á sama stað við Strandgötu. Húsið var sérstaklega byggt sem leigubílastöð og er fyrir löngu orðið eitt af helstu kennileitum Akureyrar. Eftir að nýtt miðbæjarskipulag var kynnt varð ljóst að húsið þyrfti að víkja. Það var svo endanlega staðfest í bæjarstjórn í síðustu viku. Mar­grét Elísa­bet Ims­land Andrés­ar­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri BSO segir þá ákvörðun vera vonbrigði en vonar að sátt náist um nýtt húsnæði í miðbænum á Akureyri.

Hús með langa sögu og tíkalla síma

„Við erum ósátt við að fara en það er bara komið að þessum tímapunkti en við erum alveg tilbúin í að finna bara einhverja góða lausn. Vonandi verður hún bara það góð að allir aðilar verði sáttir. En auðvitað viljum við ekkert fara, það gefur auga leið en vonandi verður þetta þannig að lendingin verði þannig að allir verði sáttir,“ segir Margrét. 

Hvaða lending væri það, sjáið þið fyrir ykkur að færa húsið?

„Nei ég held að þetta hús verði ekki fært en það væri náttúrlega best ef við gætum flutt okkur og þá miðsvæðis. Þetta hús á sér langa sögu, ég meina það er tíkalla sími hérna.“

Þurfa að fjarlægja húsið á eigin kostnað

Í bókun bæjarráðs vegna málsins segir að húsið hafi verið á bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða upp­sagn­ar­fresti frá ár­inu 1955 og eng­inn leigu­samn­ing­ur liggi fyr­ir. Því þurfi BSO að fjarlægja húsið á eigin kostnað. „Með vísan til ákvæða deiliskipulags miðbæjar Akureyrar og umferðaröryggis fer Akureyrarbær fram á það að félagið fari með mannvirki sín af lóðinni fyrir 1. apríl 2022. Þar sem engum lóðarleigusamningi er fyrir að fara eru engin ákvæði um skyldu bæjarins að leysa til sín mannvirki félagsins eða greiða bætur fyrir mannvirki þess við uppsögn stöðuleyfisins, enda er það eðli stöðuleyfis að mannvirki eru aðeins heimiluð til bráðabirgða og við lok þess tíma skuli fjarlægja mannvirki á kostnað eiganda, bótalaust,“ segir í bókun bæjarráðs. 

Húsið rifið

Það er því ljóst að húsið verður að óbreyttu rifið fyrir 1. apríl á næsta ári.  „Já mér sýnist allt stefna í það en svo kemur bara í ljós hvernig þetta er,“ segir Margrét.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson