Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íshellan yfir Eystri-Skaftárkatli lækkaði um 20 metra

06.09.2021 - 07:01
Búist er við að vatnavextir bresti á í Skaftá með morgninum. Íshellan yfir Eystri-Skaftárkatli hefur lækkað um rétt tæpa tuttugu metra frá miðnætti. Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er búist við að hún lækki allt að 60-100 metra. Óttast er að mannvirki kunni að vera í hættu.

Vatnavextir eru ekki byrjaðir í Skaftá en gera má ráð fyrir að það fari að gerast. Salóme segir að þeir byrji rólega og nái líklega hámarksrennsli á sólarhring. Fundur verður á Veðurstofunni um stöðu mála með morgninum.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að hlaupið gæti orðið jafn stórt og 2018 en gæti dreift meira úr sér. Hlaupið úr vestri katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og við bætist talsverð úrkoma sem verið hefur á svæðinu síðasta sólarhringinn. 

Þegar vatn hleypur úr Skaftárkötlum rennur það fyrst um 40 km leið undir jöklinum og síðan um 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmælinum við Sveinstind. 

Ef miðað er við framgang hlaupsins 2018 má búast við að hlaupið sjáist á vatnshæðarmæli við Sveinstind í dag, mánudaginn 6. september. Frá Sveinstindi tekur það hlaupvatnið tæpar  tíu klukkustundir til viðbótar að ná vatnshæðarmæli í Eldvatni við Ása, nærri hringveginum.  „Ef fram fer sem horfir mun hlaupvatn því ná að þjóðveginum [í] kvöld,“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV