Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Formaður bæjarráðs segir oddvita hafa brotið siðareglur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, sakar Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, um að hafa brotið fjórar greinar siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ og ákvæði sveitastjórnarlaga og bæjarmálasamþykktar. Hann ætlar að fá þar til bær yfirvöld til að skera úr um það. Hildur Sólveig segir það Njáli til minnkunar að saksækja hana þegar hún leiti leiða til að tryggja vernd og vellíðan starfsmanna bæjarins.

Harðvítugar deilur hafa blossað upp í Vestmannaeyjum eftir að yfirhafnsögumaður í Eyjum sakaði bæjarstjórann Írisi Róbertsdóttur um einelti. Hann hefur sagt upp starfi sínu og ætlar að kæra þá ákvörðun bæjaryfirvalda að taka annan umsækjanda fram yfir hann þegar ráðið var í stöðu hafnarstjóra.

Írís hefur vísað ásökunum um einelti á bug og sagt slíkar ásakanir tilhæfulausar og órökstuddar með öllu. Hildur Sólveig, oddviti Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein um málið á vef Eyjafrétta og ef marka má síðasta fund bæjarráðs Vestmannaeyja fór greinin fyrir brjóstið á meirihlutanum.

Í bókun sinni harmaði Hildur Sólveig að bæjarstjóri skyldi hafa tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna vegna kvörtunar hans um meint einelti.  Atvinnurekanda bæri skylda til að sýna varfærni við meðferð slíkra mála og nærgætni „með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi í huga“

Meirihlutinn sagði í bókun sinni að það væri vafasamt af Hildi að setja fram í grein sinni getgátur um að aðrir starfsmenn hefðu hrakist úr störfum sínum hjá sveitarfélaginu á undanförnum árum.“ Hildur vísaði því á bug að hún hefði sett fram getgátur í grein sinni, hún hefði einfaldlega vísað í orð starfsmannsins. Fulltrúar meirihlutans væru að leggja henni orð í munn.

NJáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, lagði þá einn fram bókun og sakaði Hildi Sólveigu um að hafa brotið fjórar greinar siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ. Þá hefði hún brotið ákvæði sveitarstjórnarlaga og bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar. Hann myndi leita til þar til bærra yfirvalda til að fá úr þessu skorið.

Hildur Sólveig svaraði Njáli og sagði það honum til minnkunar að eyða orku sinni í að saksækja hana í stað þess að leita leiða til að tryggja vernd og vellíðan starfsmanna. 

Málinu virðist þó hvergi nærri lokið því Sjálfstæðismenn í framkvæmda- og hafnarráði gerðu alvarlegar athugasemdir við ráðningarferli hafnarstjórans á síðasta fundi ráðsins á föstudag. „Ferill málsins samrýmist ekki eðlilegum stjórnsýsluháttum og gengur á svig við lög um ráðningu hafnarstjóra,“ sagði meðal annars í bókun þeirra.  

Meirihlutinn sagði undarlegt að þessi gagnrýni skyldi koma fram hálfu ári eftir að ráðningarferlið hófst. Engin gagnrýni hefði komið fram á ráðningarferlið þegar það hófst né í aðdraganda þess. „Þessar ásakanir koma mjög á óvart sérstaklega þar sem ekki hefur borið skugga á samstarf allra fulltrúa í ráðinu, framkvæmda- og hafnarráð hefur alltaf unnið í sátt og samlyndi.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV