Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Blinken heimsækir Afgani í Katar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á leið til Katar þar sem hann ætlar að hitta Afgani sem flúið hafa heimaland sitt og sendiráðsfólk sem áður hafði aðsetur í Kabúl.

Leið um helmings þess fjöldi sem yfirgaf Afganistan lá gegnum Katar, eða allt að 55 þúsund manns. Blinken hyggst þakka þarlendum stjórnvöldum fyrir liðsinnið við að koma fólkinu á brott.

Eins er ætlunin að ræða sameiginlega áætlun ríkjanna tveggja og Tyrklands um að enduropna flugvöllinn í Kabúl. Rík áhersla er lögð á að koma honum í starfhæft ástand að nýju svo koma megi nauðsynlegum hjálpargögnum til Afgana.

Á miðvikudaginn heldur Blinken svo til Þýskalands til fundar við Heiko Maas kollega sinn. Þaðan stjórna þeir fjarfundi ráðherra tuttugu ríkja um ástandið í Afganistan.

Talibanar heita því að standa ekki í vegi fyrir þeim Afgönum sem vilji yfirgefa landið. Það loforð verður rætt á fundi ráðherranna á miðvikudag. Bandarísk stjórnvöld segjast ætla að fylgjast grannt með því að

Talibanar standi við stóru orðin um meira frelsi en einkenndi fyrri valdatíð þeirra, einkum hvað snertir réttindi kvenna. Blinken kveðst ekki funda með Talibönum að svo stöddu.