Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Eldgosið að taka sér næst-lengsta frí frá upphafi

Mynd með færslu
 Mynd: www.ruv.is - RÚV
Ekkert hefur sést í glóandi hraun úr eldgosinu við Fagradalsfjall í meira en tvo og hálfan sólarhring. Náttúruvársérfræðingur segir þetta ekkert endilega óeðlilegt, enda hafi gosvirknin legið niðri í fjóra sólarhringa í sumar. Enn rýkur myndarlega úr gígnum þó hraunið sjáist ekki.

Ekkert glóandi hraun síðan á fimmtudag

Það hefur ekki verið mikið að frétta af eldgosinu í tvo og hálfan sólarhring, eða síðan á fimmtudag. Samkvæmt vefmyndavélum RÚV virðist að sama skapi hafa dregið mikið úr fjölda þeirra sem leggja leið sína að eldgosinu, enda ekkert annað að sjá en storknað hraun. Og veðrið gæti sömuleiðis alveg verið betra.

Þetta er næst-lengsta pása sem eldgosið hefur tekið sér síðan það hófst nær hálfu ári, föstudagskvöldið 19. mars. En gosvirknin lá niðri í fjóra sólarhringa í sumar, 6. til 10. júlí, en jókst svo aftur. Óróagröfin á vef Veðurstofunnar sýna glögglega þennan dvala, þó að það virðist hafa tekið örlítinn kipp í gærkvöld, segir Böðvar Sveinsson, sérfræðingur í náttúruvá hjá Veðurstofu Íslands.  

„Við sjáum engar breytingar á gosinu akkúrat núna. En við sjáum að það rýkur aðeins upp úr. Það er eitthvað í gangi ennþá. Það er allavega einhver hiti. En það er ekki hægt að útiloka neitt allavega strax. Það er alveg pottþétt.”