Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norska lögreglan gerir hundruð fornmuna upptæk

04.09.2021 - 02:55
Lögregla í Noregi lagði hald á fornmuni í fórum safnarans Martin Schøyen. Ríkisstjórn Íraks segist eiga tilkall til munanna.
 Mynd: ØKOKRIM
Efnahagsbrotalögregla í Noregi gerði húsleit í síðustu viku hjá kaupsýslumanninum Martin Schøyen sem er ákafur safnari fornra muna. Ástæða húsleitarinnar er að hann var talinn hafa í fórum sínum hluti sem ættu betur heima annars staðar.

Norska ríkisútvarpið greinir frá því á vef sínum að lögregla hafi gert nærri hundrað gripi upptæka sem ríkisstjórn Íraks hefur gert tilkall til. 

Schøyen neitar allri sök og segir munina hafa verið keypta af viðurkenndum og mikilsmetnum söfnurum. 

Meðal þess sem var gert upptækt eru töflur með fleygrúnum frá hinni fornu Mesópótamíu, landsins milli fljótanna Efrat og Tígris. Það svæði er í dag hluti af Írak, Sýrlandi og Tyrklandi.

Það allra verðmætasta í safninu er grunnmynd af hinum goðsagnakennda Babelsturni. Sé hún ósvikin er hún tuga eða hundraða milljóna króna virði. 

Abid Raja, menningarmálaráðherra Noregs, segir í yfirlýsingu að áríðandi sé að fornmunum sé skilað réttmætra eigenda, það er þeirra landa þaðan sem þeir eigi uppruna sinn.