Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fleiri andstæðingar Ortega forseta Níkaragva ákærðir

epa08814794 A boy walks in front of a mural with the image of Nicaraguan President Daniel Ortega in Managua, Nicaragua, 11 November 2020. The president of Nicaragua, Daniel Ortega, turns 75 this Wednesday, without showing signs of wanting to leave power, after almost 14 consecutive years of mandate.  EPA-EFE/Jorge Torres
 Mynd: epa
Stjórnvöld í Mið-Ameríkuríkinu Níkaragva segjast munu ákæra þrjá forsetaframbjóðendur fyrir föðurlandssvik en í gær var tilkynnt um ákæru yfir þeim fjórða fyrir peningaþvætti.

Daniel Ortega, forseti landsins, heldur þannig uppteknum hætti við pólitískar hreinsanir í aðdraganda forsetakosninga í landinu. Nú eru rúmir tveir mánuðir til þeirra en Ortega sækist eftir endurkjöri fjórða sinni.

Mótframbjóðendur hans sem ákæra á fyrir föðurlandssvik þeir Felix Maradiaga, Arturo Cruz og Juan Sebastian Chamorro sitja í gæsluvarðhaldi en ekki hefur verið tilkynnt hvenær réttarhöld eigi að hefjast yfir þeim.

Frambjóðandinn Cristina Chamorro hefur setið í stofufangelsi frá 2. júní þegar rannsókn hófst á meintu peningaþvætti hennar gegnum stofnun sem hún rak rak um tveggja áratuga skeið.

Móðir hennar er Violeta Barrios de Chamorro sem var forseti Níkaragva á árunum 1990 til 1997.

Nú standa yfir réttarhöld yfir 34 stjórnarandstæðingum, þar á meðal þremur forsetaframbjóðendum og til stendur að sækja enn aðra sex stjórnarandstæðinga til saka.

Þeirra á meðal eru fyrrverandi leiðtogar í Sandinistahreyfingu Ortega forseta. Hann heldur því fram að Bandaríkin standi að baki tilraunum andstæðinga hans við að koma honum frá völdum.

Ortega réði ríkjum í Níkaragva frá 1979 til 1990 og hefur verið forseti frá árinu 2007.