Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Eins og bútasaumur og dolla undir leka

04.09.2021 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar Alþingis segir jákvætt að verið sé að leita allra leiða til að stytta biðlista eftir aðgerðum. Samningur Landspítala við Klíníkina sé þó lítið annað en bútasaumur, vandi heilbrigðiskerfisins sé miklu flóknari en svo að leysa megi hann með þessum hætti.

Landspítali hefur samið við Klíníkina um að gera á annað hundrað aðgerðir og í sjónvarpsfréttum í gær kom fram að verið væri að skoða frekara samstarf til að stytta biðlista. Þetta er í fyrsta skiptið sem slíkur samningur er gerður og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta mikilvægt skref sem samræmist opinberri heilbrigðisstefnu.

„Ég verð auðvitað að fagna þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að ætla að koma heilbrigðiskerfinu okkar til aðstoðar. Það hefur auðvitað ríkt ófremdarástand lengi, ekki bara vegna COVID,“ segir Helga Vala.

Hún segist undrast „þennan bútasaum“ sem núna sé verið að fara í. „Það virðist sem það sé engin stefna hjá ríkisstjórninni hvaða leið eigi að fara. Það skortir heildarsýn yfir kerfið.“

Helga Vala segir hættu á að verði meira gert af samningum sem þessum muni það leiða til kostnaðarauka. Nær hefði verið að efla opinbera heilbrigðiskerfið, því vandinn liggi í vanfjármögnun þess.

„Það leiðir til mönnunarvanda vegna þess að það er ekki hægt að ráða fólk inn. Heilbrigðisstofnunum um allt land er gert að draga saman, þær hætta að veita ákveðna þjónustu sem endar á biðlistum á Landspítala sem er þjóðarsjúkrahúsið.“

„Það er sem íslenska heilbrigðiskerfið sé rekið frá degi til dags og það þurfi einhvernveginn að hlaupa með dollu undir lekann. Þetta er engin framtíðarlausn,“ segir Helga Vala.