Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bóluefni gegn hverju afbrigði væntanleg fljótlega

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans, segir í raun ótrúlegt að bóluefni virki gegn Delta-afbrigði kórónuveirunnar. Hann kveðst vonast til að bóluefni gegn hverju afbrigði veirunnar verði aðgengilegt innan skamms.

Þetta kemur fram í grein Björns í nýjasta tölublaði Læknablaðsins sem Morgunblaðið gerir að umfjöllunarefni í dag.

Björn segir öll þau bóluefni sem nú eru á markaði hafa verið hönnuð með upphafsafbrigði veirunnar í huga. Delta-afbrigðið sé verulega umbreytt frá því. Kórónuveiran stökkbreytist títt og þá fara ný afbrigði af stað. Fjögur afbrigði eru skilgreind sem hættuleg og fjögur önnur sem viðsjárverð.

Hann segir einnig að árangur bólusetninga sé ótvíræður, 2,6 sinnum algengara sé að óbólusettir sextán ára og eldri smitist. Flest þau sem hafi þurft að leggjast á sjúkrahús séu yfir fimmtugu og með undirliggjandi áhættuþætti. Þekkt sé að slíkt dragi almennt úr áhrifum af bólusetningu.

BJörn kveður takmarkaðar niðurstöður liggja fyrir um árangur örvunarskammta bóluefnis fyrir annars heilbrigt fólk gegn Delta-afbrigðinu. 

„Fyrirliggjandi gögn um slíka bólusetningu meðal ónæmis--bældrar (um það bil 3% þjóðarinnar) eru nokkuð afgerandi, en ekki rannsökuð til fulls,“ segir í grein Björns í Læknablaðinu.

„Megináherslan ætti því að miðast við að ná til sem flestra til bólusetningar, með sérstaka áherslu á örvunar-skammt hjá ónæmisbældum eins og bandaríska lyfjastofnunin heimilaði nýlega.“

Björn vonast til að fyrir lok þessa árs verði bóluefni orðin aðgengileg sem hönnuð séu gegn þeim afbrigðum sem í gangi eru hverju sinni. 

„Vonandi fáum við sem fyrst aðgang að bóluefnum sem sérstaklega hafa verið hönnuð gegn þeim afbrigðum sem mest eru í gangi hverju sinni, en þau ættu að verða aðgengileg í síðasta lagi fyrir lok þessa árs.“