Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bíða ráðgjafar landlækna um bólusetningu unglinga

Home Secretary Sajid Javid poses for photographers outside the Home Office in Westminster, London, Monday April 30, 2018. British Prime Minister Theresa May has named Sajid Javid as Britain's new Home Secretary Monday April 30 after the previous
 Mynd: AP - PA
Breska ríkisstjórnin lítur svo á að rök séu með því að bólusetja heilbrigð börn á aldrinum tólf til fimmtán ára. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar bíða ráða landlækna þjóðanna fjögurra á Bretlandseyjum áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Búist er við að niðurstaða læknanna liggi fyrir innan fárra daga. Breska ríkisstjórnin hefur alltaf lofað að fylgja ráðleggingum vísindamanna um aðgerðir í faraldrinum.

Sérfræðingar ónæmis- og bólusetningarráðs Bretlands (JCVI) mæltu í gær gegn bólusetningu þessa aldurshóps með þeim rökum að lágmarkságóði fylgdi slíkri aðgerð.

Frá því er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC að JCVI sé fyrst og fremst ráðgefandi en að ríkisstjórnir fari fremur að tilmælum landlækna Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands. 

Milljónir skólanemenda á Bretlandseyjum hafa nú snúið aftur til skóla og því biður Sajid David heilbrigðisráðherra landlæknana um að horfa á fyrirhugaða bólusetningu unglinganna frá víðara sjónarhorni.

Horfa þurfi til nýgengis smita og þeirra áhrifa sem fjölgun smita kunni að hafa á skólastarf og samfélagið allt. Fjöldi nýrra tilfella hefur tvöfaldast á Bretlandi undanfarnar tvær vikur sem talið er að megi rekja að hluta til upphafs skólaársins.

Rekja má þá bylgju faraldurins sem leiddi til allsherjar útgöngubanns á Englandi síðastliðið haust til þess að grunn-, framhalds- og háskólar hófu starfsemi sína að nýju.