Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þjóðhátíðarleysið heggur stórt skarð í rekstur ÍBV

03.09.2021 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Forsvarsmenn ÍBV og bæjarstjóri Vestmannaeyja hafa átt fundi með menntamálaráðherra, sveitastjórnarráðherra og fjármálaráðherra til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá félaginu. Drög að minnisblaði um fjárhagsstöðu félagsins voru rædd á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í vikunni.

Ekki hefur verið hægt að halda Þjóðhátíð í Eyjum tvö ár í röð vegna kórónuveirufaraldursins.

Til að bæta gráu ofan á svart var undirbúningur í bæði skiptin langt á veg komin. Í fyrra var henni aflýst um miðjan júlí og í ár var beðið fram á síðustu stundu. Forsvarsmenn hátíðarinnar veltu meira að segja upp þeim möguleika að fresta henni og halda hana um miðjan ágúst. 

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs að Írís Róbertsdóttir, bæjarstjóri, hafi kynnt drög að minnisblaði um stöðu íþróttafélagsins.

Hún ásamt forsvarsmönnum íþróttafélagsins hefur fundað með menntamálaráðherra, sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra og kynnt  þá „alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá félaginu vegna þeirra takmarkanna sem ríkisstjórnin setti og urðu til þess að ekki var hægt að halda þjóðhátíð.“

Í fundargerðinni segir að þetta hafi haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu félagsins, sérstaklega rekstur barna-og unglingastarf.  Bæjarráð tók í bókun sinni undir þær áhyggjur sem ÍBV hefur af stöðu mála og fól bæjarstjóra að fylgjast með gangi viðræðna milli félagsins og stjórnvalda.