Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mars-jeppinn Perserverance náði heilum bergsýnum

Mynd með færslu
 Mynd: NASA/JPL-Caltech
Geimjeppanum Perseverance tókst í annari tilraun að ná heilum bergsýnum úr kletti á yfirborði reikistjörnunnar Mars. Síðar verða sýnin send til jarðar þar sem vísindamenn sækjast eftir auknum skilningi á jarðfræði þessa næsta nágranna okkar í sólkerfinu.

Geimjeppinn lenti í Jezero-gígnum 18. febrúar og tók til við að bora í yfirborð Mars í síðasta mánuði. Þá reyndist grjótið of laust í sér og molnaði undan ágangi borsins. 

Upplýsingar sem geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA, bárust í fyrradag benda til að betur hafi gengið að þessu sinni. Þó er það ekki alveg öruggt vegna þess að ljósmyndir af sýnunum reyndust heldur óskýrar vegna bágra birtuskilyrða. 

Vonast er til að skýrari myndir berist fyrir laugardag. Jennifer Trosper, verkefnastjóri hjá NASA segir að bergsýnin séu vísindalega mikilvæg og kveðst vongóð um að þau séu eins og til er ætlast. 

Vísindamenn telja að fyrir um það bil 3,5 milljörðum ára hafi verið djúpt vatn í Jezero-gígnum sem kunni að hafa getað fóstrað líf. Geimjeppinn leitar nú að vísbendingum um hvort svo hafi verið en búnaður hans er fær um að greina efnafræðilega samsetningu sýna. Þannig má sjá hvort lífræn efni kunni að finnast í jarðveginum. 

Á næsta áratug er ætlunin að flytja um þrjátíu sýni frá Mars til Jarðar þar sem þau verða greind í mælitækjum mun fullkomnari en þeim sem nú er hægt að fara með til Mars.